28 ára gamall franskur þjónn var skotinn til bana af óþolinmóðum viðskiptavin, síðastliðið föstudagskvöld. Atvikið varð á pizzu- og samlokustað í Noisy-le-Grand úthverfi frönsku höfuðborgarinnar, Parísar. Sky greinir frá.
Samkvæmt vitnum að árásinni missti morðinginn þolinmæðina þar sem að honum fannst hann hafa beðið of lengi eftir samloku sem hann hafði pantað á staðnum. Greip hann þá til þess ráðs að skjóta þjóninn í öxlina með skammbyssu sem varð til þess að hann lést.
Morðinginn flúði af vettvangi og leit er hafin að honum samkvæmt upplýsingum sem franska lögreglan veitti AFP.
