Bandaríska fjármálaráðuneytið hefur lagt viðskiptaþvinganir á utanríkisráðherra Írans, Mohammad Javad Zarif. Ákvörðunin þýðir að allar eignir Zarifs, ef einhverjar eru, hafa verið frystar.
Steve Mnuchin, fjármálaráðherra í ríkisstjórn Donalds Trump segir að Zarif sjái um að framkvæma ábyrgðarlausa stefnu leiðtoga Írans og því beri að leggja þvinganirnar á hann.
Zarif hefur þegar lýst því yfir að aðgerðirnar hafi engin áhrif á líf hans, hann og hans fjölskylda eigi engar eignir utan Írans. Á Twitter síðu sinni hæðist hann að útspili Bandaríkjamanna og þakkar þeim fyrir að að líta á sig sem svo mikla ógn við stefnu þeirra.
Spennan á milli landanna tveggja hefur aukist dag frá degi síðan Bandaríkjamenn sögðu sig frá kjarnorkusamningnum sem Vesturveldin gerðu á sínum tíma við Íran og hafa menn vaxandi áhyggjur af því að til stríðs gæti komið á milli landanna tveggja.
Leggja viðskiptaþvinganir á utanríkisráðherra Írans
Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
