Sumarið 2019 verður lengi í minnum haft á Suðurlandi, blíðaskapaveður alla daga, góður hiti og allt smá rigning á milli. Bændur bera sig vel enda ekki hægt að hugsa sér betra veður fyrir heyskap. Arnar Bjarni Eiríksson er kúabóndi á bænum Gunnbjarnarholti í Skeiða og Gnúpverjahreppi.
„Þetta er einfaldlega lengsta sumar sem ég hef nokkurn tímann lifað og er ég bara rétt um hálfrar aldar gamall. Ég man aldrei eftir svona sumri á ævinni áður, það er hiti og notalegt veður á hverjum einasta degi og því fylgir náttúrulega afskaplega skemmtilegur og þægilegur heyskapur“, segir Arnar Bjarni Eiríksson, bóndi á bænum Gunnbjarnarholti í Skeiða og Gnúpverjahreppi.

„Og það er alveg ljóst, allavega hér á Suðurlandi verða þrír slættir á velflestum stöðum þar sem menn hafa byrjað snemma. Við erum að tala um mjög góð hey og svo þar sem menn eru í byggrækt, það er alveg ljóst að það verður mjög góð bygg uppskera“.