„Þetta er sendiráð Kópavogs í miðbæ Reykjavíkur,“ segir Herra Hnetusmjör en 203 er vísun í póstnúmer í Kópavogi. Skemmtistaðurinn verður í Austurstræti 3.
Í Austurstræti 3 er að finna veitingastaðinn Kebabhúsið en skemmtistaðurinn 203 verður á annarri og þriðju hæð hússins og stendur til að innrétta staðinn eins og Herra Hnetusmjör vill hafa hann.
„Þetta verður bara stemning. Þarna verður tónlist sem ég fíla, svokallað versace hip-hop. Þessi staður verður 2019,“ segir Herra Hnetusmjör.

Hann stendur þó ekki einn í þessu viðskiptaævintýri heldur er hann að eigin sögn með góða fjárfesta með sér.
Herra Hnetusmjör tilkynnti um þennan nýja stað í laginu Vitleysan eins sem hann gaf út nýverið og er með 50 þúsund spilanir á Spotify þegar þetta er skrifað.
Skemmtistaðurinn Prikið hefur hingað til verið samkomustaður unnenda hip hop tónlistar en Herra Hnetusmjör segir Reykjavík nógu stóra fyrir tvo slíka staði. „Prikið er legendary staður og ég hef ekkert nema gott um hann að segja.“