Erlent

Telja gamalt bein elstu leifar um mannkyn utan Afríku

Kjartan Kjartansson skrifar
Stafræn endurgerð af höfuðkúpubeininu sem fannst á Grikklandi seint á 8. áratugnum.
Stafræn endurgerð af höfuðkúpubeininu sem fannst á Grikklandi seint á 8. áratugnum. AP/Katerina Harvati/Háskólinn í Tübingen
Hluti af höfuðkúpubeini úr manni sem fannst í helli á sunnanverðu Grikklandi er talinn elsta vísbendingin um að mannkynið hafi hætt sér út fyrir Afríku.

Steingert beinið fannst í uppgreftri í Apidima-hellinum á sunnanverðum Pelópsskaga fyrir um fjörutíu árum og hefur verið geymt á safni Háskólans í Aþenu síðan. Það var aðeins nýlega sem fornleifafræðingar byrjuðu að sýna því áhuga, að sögn AP-fréttastofunnar.

Vísindamennirnir sem hafa rannsakað beinið telja að það sé að minnsta kosti 210.00 ára gamalt. Það er þá að minnsta kosti sextán þúsund árum eldra en kjálkabein sem fannst í Ísrael í fyrra. Tölvulíkan var notað til að bera beinið saman við lögun steingervinga úr þekktum tegundum manna. Niðurstaðan var að það væri úr manni.

Fram að þessu hefur verið talið að fyrstu fulltrúar mannkynsins hafi ekki yfirgefið heimahagana í Afríku fyrr en fyrir rúmum hundrað þúsund árum. Sé aldurgreiningin á beininu rétt byrjaði mannkynið að dreifa sér um jörðina mun fyrr en áður var talið.

Sumir vísindamenn draga áreiðanleika aldursgreiningarinnar í efa. Katerina Harvati frá Tübingen-háskóla í Þýskalandi sem rannsakaði beinið segir þvert á móti að höfuðkúpubeinið sé vel til þess fallið að greina á milli ólíkra tegunda manna og að margar vísbendingar styðji greininguna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×