Erlent

Cor­byn kallar eftir rann­sókn á til­drögum fréttar um heilsu­far sitt

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Jeremy Corbyn er ósáttur við fréttaflutning af heilsufari hans.
Jeremy Corbyn er ósáttur við fréttaflutning af heilsufari hans. vísir/getty
Jeremy Corbyn, formaður breska Verkamannaflokksins, hefur kallað eftir opinberri rannsókn á tildrögum fréttar sem birtist í dagblaðinu The Times um að hann sé of veikburða til að gegna embætti forsætisráðherra Bretlands.

Blaðið byggði frétt sína á upplýsingum frá háttsettum ónafngreindum embættismönnum.

Corbyn hefur ritað Mark Sedwill, sérstökum ráðherra embættismála hjá breska ríkinu, bréf þar sem hann segir að röng frásögn um heilsufar sitt hafi varpað rýrð á hlutleysi embættismannakerfisins sem sé órjúfanlegur hluti af heilbrigðu og vel starfhæfu lýðræði í landinu.

Frá þessu er greint á fréttavef Reuters. Corbyn, sem varð sjötugur í maí, óskar eftir sjálfstæðri rannsókn og fer fram á að hún verði unnin hratt og örugglega.

The Times greindi frá því í síðasta mánuði að háttsettir embættismenn hefðu miklar áhyggjur af heilsufari Corbyn.

Þeir teldu að hann þyrfti að hætta sem formaður verkmannaflokksins þar sem hann hefði hvorki líkamlega né andlega burði til þess að sinna leiðtogahlutverki í breskum stjórnmálum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×