Samkvæmt heimildum fréttastofu var boðað til starfsmannafundar í morgun. Þar var fólki tjáð um fyrirhugaða lokun og að fólk myndi missa vinnuna. Ástæðan var sögð rekstrarerfiðleikar hjá versluninni. Voru starfsmenn hvattir til að leita til Vinnumálastofnunar varðandi réttindi sín.
Lokunin hefur vakið mikla athygli enda verslunin verið leiðandi í tölvubransanum undanfarin tólf ár. Í tilkynningu frá fyrirtækinu sem birtist óvænt á Facebook-síðu þess í morgun segir að lokunina megi rekja til „óviðráðanlegra ástæðna“.
Samkvæmt heimildum fréttastofu komu tíðindin í morgun starfsfólki ekki í opna skjöldu. Höfðu margir heyrt undanfarna daga að reksturinn gengi illa og allra veðra von í þeim efnum. Orðrómurinn var svo staðfestur í dag.

Viðskiptavinir gráta margir hverjir lokunina á Facebook-síðu fyrirtækisins en aðrir eru ósáttir við þessa skyndilegu lokun hagsmuna sinna vegna. Óttast þeir um gjafabréf sín, vörur sem eru í viðgerð og fleira í þeim dúrnum.
Því er beint til viðskiptavina fyrirtækisins í tilkynningu að starfsfólk Tölvuteks verði í símasambandi næstu daga við þá sem eiga tölvubúnað í viðgerð. Búnaðinum verði komið til þeirra viðskiptavina sem hann eiga. Þá sé verið að vinna í ábyrgðarmálum en ferli fyrir öll vörumerki í verslununum verður tilkynnt fljótlega.
