Innlent

Kýldi sambýliskonu sína og dóttur hennar ítrekað

Birgir Olgeirsson skrifar
Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. Vísir/Rakel
Karlmaður hefur verið dæmdur til sex mánaða skilorðsbundinnar fangelsisvistar fyrir að hafa beitt þáverandi sambýliskonu sína og dóttur hennar grófu ofbeldi. 

Brotin áttu sér stað sunnudaginn 24. desember árið 2017 en maðurinn játaði sök fyrir dómi.

Maðurinn veittist að þáverandi sambýliskonu sinni að heimili þeirra í Reykjavík, ýtti henni upp að vegg, kýldi hana með krepptum hnefa í andlit og herðar, reif í hár hennar og sparkaði í hægra læri hennar.

Konan hlaut eymsli, mar og eins sentímetra skurð yfir hægra gagnauga, mar neðan við hægra auga, bólgu og mar yfir kinnbeini hægra megin, tannbrot í hægri frammtönn í efri gómi og hægri framtönn í neðri gómi, roða á vinstri vanga og eymsli, þreifieymsli fyrir neðan vinstra herðablað og þreifieymsli utanvert á hægra læri.

Maðurinn veittist að dóttur konunnar á sameiginlegu heimili þeirra í Reykjavík, kýldi hana ítrekað með krepptum hnefa í andlitið og sparkað í andlit hennar, allt með þeim afleiðingum að hún hlaut eymsli, mar og bólgu yfir kinnbeini og gagnaugasvæði vinstra megin.

Er maðurinn fæddur árið 1972 og sem fyrr segir dæmdur í fangelsi í sex mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar haldi hann skilorði í tvö ár. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×