Innlent

Söngvarar Hatara segja aðskilnaðarstefnuna í Ísrael auðsjáanlega

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Söngvararnir tveir fyrir fyrstu æfingu sveitarinnar í Ísrael í gær.
Söngvararnir tveir fyrir fyrstu æfingu sveitarinnar í Ísrael í gær. Andreas Putting/EBU
Klemens Nikulásson Hannigan og Matthías Tryggvi Haraldsson, söngvarar Hatara, segjast finna fyrir aðskilnaðarstefnu sem að ríki í Ísrael og Palestínu. Þetta sögðu þeir í viðtali við Eurovision-miðilinn wiwibloggs í gær. Þeir eru staddir í Tel Aviv um þessar mundir, þar sem þeir taka þátt í Eurovision fyrir Íslands hönd.

„Við erum á báðum áttum með þátttöku okkar í Eurovision en mér finnst að sem þátttakendur höfum við valdið til þess að benda á fáránleikann við að halda keppni sem þessa, sem er falleg og stofnuð í anda einingar og friðar, og hafa hana í landi sem er örum sett vegna átaka og sundrungar,“ sagði Matthías Tryggvi Haraldsson, annar söngvara Hatara, í samtali við wiwibloggs.

„Í gær fórum við til Hebron, sem er palestínsk borg. Við vorum með palestínskan leiðsögumann sem fór með okkur um svæðið. Þarna eru götur sem við skoðuðum, svokallaðar „draugagötur,“ þar sem öllum palestínskum rekstri hefur verið hætt. Aðskilnaðarstefnan er greinileg, því Palestínufólki er ekki hleypt inn í þessar draugagötur,“ sagði Klemens Nikulásson Hannigan, hinn söngvari sveitarinnar.

Matthías bætti því við að hernám Ísraela í Palestínu hefði fleiri en eina birtingarmynd og benti því til stuðnings á ástandið á Gaza-ströndinni. Í fyrradag var hundruðum eldflauga skotið á milli landamæra Palestínu og Ísraels. Alls létust þrír í árásunum, einn ísraelskur borgari og tveir palestínskir.

„Þessi pólitíski raunveruleiki er mjög ósamhljóða og fáránlegur. Aðskilnaðurinn í Hebron var deginum ljósari,“ sagði Matthías.

Klemens sagði Hatara trúa því að sveitin sé fær um að notfæra sér dagskrárvaldið sem fæst með þátttöku í Eurovision til þess að beina athygli fólks að ástandinu í Ísrael og Palestínu.

Viðtalið við söngvarana tvo má sjá hér að neðan.




Tengdar fréttir

Samið um vopnahlé á Gaza

Ísraelski herinn nam í morgun úr gildi viðbúnað sem verið hefur í suðurhluta Ísraels síðustu daga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×