Í færslu sem hann birti á Facebook segist hann eiga SÁÁ margt að þakka í uppgjöri sínu við áfengisvanda sinn. Eftir að upp komst um brot hans gegn Báru Huld Beck, blaðamanni Kjarnans, hét Ágúst því að leita sér aðstoðar þá tvo mánuði sem hann tæki sér frí frá þingstörfum. Frímánuðirnir urðu að lokum tæplega fimm.
Sjá einnig: Helmingur Íslendinga vill afsögn Ágústs Ólafs
„Ég hef þurft að horfast í augu við líf mitt, viðurkenna vanmátt minn gagnvart áfengi og vera tilbúinn að þiggja aðstoð annarra. Hjá SÁÁ hefur mér opnast nýr heimur. Markmið þeirra sem leita sér aðstoðar er að verða betri samferðarmenn fyrir sína nánustu og samfélagið allt. Hinni eiginlegu meðferð er nú lokið þótt verkefninu ljúki vissulega aldrei,“ skrifar Ágúst Ólafur.
„Ég brenn enn fyrir því að starfa í þágu samfélagsins og koma góðum málum til leiðar sem stjórnmálamaður. Í raun er ég biðja um annað tækifæri.“
Þingið kemur ekki saman á morgun, 1. maí, en þingfundur og hefðbundin nefndastörf eru á dagskránni á fimmtudag. Ágúst sat í fjárlaganefnd, sem fundar þó ekki þann 2. maí.