Dómstólasýslan hefur farið þess á leit við dómsmálaráðuneytið að ráðuneytið hlutist til um lagabreytingu sem myndi heimila fjölgun dómara við Landsrétt. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá dómstólasýslunni.
Fjórir Landsréttardómarar munu ekki starfa við réttinn í óákveðinn tíma eftir dóm Mannréttindadómstóls Evrópu, sem komst að þeirri niðurstöðu að ekki hafi verið löglega staðið að skipan dómara við Landsrétt.
Í tilkynningunni kemur fram að formaður stjórnar dómstólasýslunnar og framkvæmdastjóri hennar hafi átt í ítarlegum viðræðum við fulltrúa ráðuneytisins og nokkra Landsréttardómara. Auk þess hafi verið haft samráð við réttarfarsnefnd. Eftir viðræðurnar hafi verið tekin ákvörðun um að fara þess á leit við dómsmálaráðuneytið að lögum verið breytt svo mögulegt verði að fjölga dómurum Landsréttar.
Dómstólasýslan telur fjölgunina nauðsynlega þar sem að þeir fjórir dómarar sem skipaðir voru af Sigríði Á Andersen, þáverandi dómsmálaráðherra, í stað þeirra fjögurra sem hæfnisnefnd mat hæfasta, geti að óbreyttu ekki tekið þátt í störfum réttarins. Álag á Landsrétt komi því til með að aukast til muna með tilheyrandi drætti mála, verði dómurum ekki fjölgað.
Þá leggur dómstólasýslan áherslu á að áður en ákvörðun um hvort skjóta eigi málinu til Yfirdómstóls Mannréttindadómstólsins verði áhrif þess könnuð. Mikilvægt sé að hafa í huga þá óvissu sem umkringt hefur Landsrétt frá því hann tók til starfa í upphafi síðasta árs.
