Bergrisinn er byggðasamlag sveitarfélaga á Suðurlandi um málefni fatlaðs fólks. Nú hefur Bergrisinn keypt einbýlishús á Selfossi við Vallaholt 27 fyrir börn með fjölþættan vanda en þar verður úrræði fyrir tvö börn, 18 ár og yngri. Reiknað er með að rekstrarkostnaður heimilisins verði um 50 milljónir króna á ári en Jöfnunarsjóður mun greiða stóran hluta rekstrarkostnaðarins. Jóhanna Frímannsdóttir er forstöðumaður nýja heimilisins á Selfossi.
„Þetta heimili er fyrir börn með mikla þroska og geðraskanir, sem er fyrst og fremst hugsað sem stuðningur við fjölskyldur, sem eiga börn með langvarandi stuðningsþarfir. Það er sambærilegt heimili í Mosfellsbæ og í Reykjavík. Reglugerðin, sem við störfum eftir kom út 2018. Það er mjög sjaldgæft að börn séu búsett annars staðar en heima hjá foreldrum sínum. Þeir eru samt enn þá forsjáraðilar yfir börnunum sínum og getið komið í heimsóknir hvenær sem er og tekið börnin tímabundið til sín í lengri eða skemmri tíma í heimsóknir“, segir Jóhanna.

„Við erum með tæplega sex stöðugildi eins og er en það verður svo bara að koma í ljós hvort þörfin verður meiri. Mér finnst mest spennandi að fá að hjálpa foreldrum og fá að taka þátt í að móta starfið með þeim. Það er ekki biðlisti inn á heimilið en það er sérfræðiteymi, sem tekur ákvarðanir um hverjir komast inn á heimilið“, bætir Jóhanna við.