Erlent

Loka landa­mærunum með gámum og olíu­bílum

Atli Ísleifsson skrifar
Hraðbrautin milli kólumbísku borgarinnar Cúcuta og venesúelsku borgarinnar Ureña.
Hraðbrautin milli kólumbísku borgarinnar Cúcuta og venesúelsku borgarinnar Ureña. AP
Nicolás Maduro hefur neitað stjórnarandstöðunni í Venesúela um að flytja hjálpargögn inn í landið. Herinn hefur nú lokað landamærunum að Kólumbíu með því að koma gámum og olíubílum þar fyrir.

Segja má að tveir forsetar séu nú starfandi í Venesúela – þeir Nicolas Maduro og Juan Guaidó. Maduro, sem gegnt hefur forsetaembættinu frá 2013, hefur fyrirskipað hernum að loka landamærunum milli kólumbísku borginni Cúcuta og venesúelsku borgarinnar Ureña. Er þetta gert til að koma í veg fyrir að neyðaraðstoð berist inn í landið um brúna sem tengir borgirnar tvær.

Stjórnarandstæðingar hugðust flytja birgðir inn í landið fyrr í dag, en stjórnarhermenn gripu þá til þess ráðs að loka landamærunum eftir fyrirskipan Maduro.

Guaidó, sem íslensk stjórnvöld hafa nú viðurkennt sem lögmætan bráðabirgðaforseta Venesúela, segir að líf 300 þúsund íbúa Venesúela sé í hættu, takist ekki að koma hjálpargögnum til landsins.

EPA

Matvæði og lyf

Reuters greindi frá því í gær að bandarísk yfirvöld hafi ætlað sér að senda matvæli og lyf til Venesúela, en Maduro hefur ítrekað sakað þau um að aðgerðin sé einungis liður í því að komast yfir olíuauðlindir Venesúela.

Maduro sór embættiseið í síðasta mánuði eftir umdeildar forsetakosningar sem fram fóru í maí á síðasta ári. Stjórnarandstaðan viðurkenndi ekki kosningarnar og eftirlitsaðilar sögðu þær ekki hafa farið rétt fram, meðal annars vegna þess að mörgum andstæðingum Maduro var meinað að taka þátt í þeim. Í kjölfar þess lýsti gamla þingið Guaidó starfandi forseta Venesúela og hefur hann sagt að markmið hans sé að mynda starfstjórn og boða til nýrra kosninga.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×