Skoðun

Hvað slær klukkan?

Þorbjörg Gunnlaugsdóttir skrifar
Stóra klukkumálið er svo spennandi því það kynnir ekki bara til leiks þá hugmynd að klukkan geti verið það sem við viljum að hún sé. Klukku­umræðan býður okkur jafnframt þá nýju heimsmynd að hægt sé að breyta því sem hingað til hefur verið greypt í stein. Þegar það er orðið matsatriði hvað klukkan er þá breytast líka væntingarnar um hvað má setja á óskalistann.

Ef við fáum nýja klukku, þá myndi ég líka vilja nýja krónu. Og svo myndi ég biðja um annað veður á Íslandi. Að allar fjórar árstíðir væru á dagskrá á einu og sama árinu og jafnvel í réttri röð. Krafan yrði jafnræði milli árstíða. Á Íslandi höfum við dálítið verið að vinna með leikskipulagið haust-vetur-haust eða þegar illa árar, haust í haust. Haustið er eins og freki kallinn í umræðunni sem heldur alltaf að það sé komið að honum, þó hinir hafi ekkert fengið að tala. Öll vitum við að veðrið leikur þýðingarmikið hlutverk í alls konar samhengi, t.d. bara í mannlegum samskiptum. Rigningin hefur það hlutverk að sætta elskendur eins og bíómyndirnar kenna okkur. Í rigningu er misskilningi eytt. Flugvélin var ekki farin eftir allt saman og elskendurnir kyssast fyrir utan flugstöðina í hellidembu. Blaut (og alltaf illa klædd).

Eins og ég var sár í sumar þegar haustið frekjaðist inn á okkur með óréttláta rigninguna er ég núna svífandi hamingjusöm með að veturinn stígur á sviðið, á réttum tíma, og af miklum elegans. Veturinn er bestur þegar hann losar sig við feimnina. Kaldur og snjóþungur er veturinn í sínum rétta ham. Loforðið um að á eftir vetri komi vor myndi gera meira fyrir mig en hvort klukkan slær 13 eða 14. Allt hefur sinn tíma.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×