Ríflega helmingur allra lækna á Íslandi tók þátt í könnuninni sem var unnin fyrir Læknafélag Íslands.

Ólafur Þór Ævarsson, geðlæknir sem stýrði vinnu við könnunina, segir að tveir af hverjum þremur læknum séu undir ofurálagi. „Stór hluti af þeim er með kulnunareinkenni. Þetta er áhyggjuefni. Ég er glaður sem læknir að sjá að félagar mínir opna sig með þetta, vegna þess að einhverjir gætu sagt notum bara gömlu aðferðina, þöggunina.“
Þá leiðir könnunin í ljós að meira en 60% lækna telur óheppilegt að staðsetja Landspítala við Hringbraut og vill nýtt mat á staðsetningu vegna byggingar nýs spítala.
Þegar læknar eru spurðir um kynferðislega áreitni á vinnustað segjast um 7% kvenlækna hafa orðið fyrir slíku síðustu þrjá mánuði en aðeins 1% karlkyns lækna. Þegar spurt er um alla starfsævina segja 47% kvenna í læknastétt að þær hafi orðið fyrir áreitni en um 13% karla.
Meðal ástæðna sem læknar nefna fyrir of miklu vinnuálagi er undirmönnun á heilbrigðisstofnunum. „Það sem þessi könnun segir er að það sé mönnunin, skortur á starfsaðstöðu, skortur á skilgreindu vinnusviði og að læknar ráði kannski full litlu um sitt starfsumhverfi,“ segir Ólafur Þór Ævarsson geðlæknir.