Skoðun

Landsnet í eigu þjóðar

Kolbeinn Óttarsson Proppé skrifar
Landsnet er eitt þeirra mikilvægu fyrirtækja sem sinna því sem okkur stjórnmálamönnum er tamt að kalla innviði; það sem þjóðin öll nýtur í gegnum samneyslu sína. Eignarhaldi á slíku fyrirtæki er því best fyrir komið hjá ríkinu sjálfu. Öllum er ljóst hve mikilvægt er að tryggja að rafmagn flæði um landið allt. Það mikilvægi þarf ekki að reifa frekar, því flestir landsmenn búa við þær aðstæður að þurfa ekki að velta dreifingu rafmagns mikið fyrir sér; það er bara þarna og allt virkar svo við getum kveikt ljós í eldhúsinu.

Því miður búa ekki allir við slíkt öryggi. Stefna stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku var samþykkt á Alþingi í júní. Þar er sérstaklega kveðið á um að tryggja skuli afhendingaröryggi á raforku um allt land, en nokkur misbrestur hefur verið á því. Atvinnuveganefnd tiltók við afgreiðslu sína að setja ætti þau svæði í sérstakan forgang þar sem staðan er verst; Vestfirði, Eyjafjarðarsvæðið og Suðurnes.

Eignarhald Landsnets er um margt nokkuð sérstakt. Það er í dag hlutafélag í eigu Landsvirkjunar, RARIK, Orkuveitu Reykjavíkur og Orkubús Vestfjarða. Landsvirkjun á langstærsta hlutann, eða tæp 65%.

Þetta fyrirkomulag er um margt óheppilegt og hefur m.a. Ríkisendurskoðun gert athugasemdir við það. Mikilvægt er nefnilega að tryggja sjálfstæði Landsnets gagnvart aðilum á raforkumarkaði, en í því ljósi er ekki eðlilegt að fyrirtækið sé í eigu stærstu framleiðenda raforku á landinu. Eins og fram kemur í eftirfylgniskýrslu Ríkisendurskoðunar frá í febrúar, tekur atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið undir þessar athugasemdir og hefur til skoðunar tillögur um að fyrirtækið yrði í beinni eigu ríkis og/eða sveitarfélaga, en ekki orkufyrirtækja í þeirra eigu.

Landsnet hefur með höndum það verkefni að tryggja það að rafmagn berist til allra landsmanna. Það er þjóðfélagslega mikilvægt verkefni og eðlilegast að það fyrirtæki sem því sinnir sé í beinni eigu ríkisins. Raforkukerfið er okkar allra og á að vera í eigu okkar allra.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×