Erlent

Corbyn sakaður um að hafa kallað May „heimska konu“

Kjartan Kjartansson skrifar
Corbyn hefur verið tvístígandi um hvort leggja eigi fram vantrauststillögu á hendur May forsætisráðherra.
Corbyn hefur verið tvístígandi um hvort leggja eigi fram vantrauststillögu á hendur May forsætisráðherra. Vísir/EPA
Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, þvertekur fyrir að hann hafi kallað Theresu May, forsætisráðherra, „heimska konu“ í breska þinginu í fyrirspurnatíma í morgun. Atvikið náðist á sjónvarpsmynd þar sem Corbyn tuldraði eitthvað fyrir brjósti sér þegar May hæddist að honum úr ræðustól.

May gerði stólpagrín að Corbyn fyrir að hafa hætt við að lýsa yfir vantrausti á hana í þinginu. Á upptökum úr þingsal má sjá Corbyn muldra eitthvað og virðist af vörum hans að hann segja „heimska kona“ [e. Stupid woman].

Þingmenn Íhaldsflokksins sökuðu Corbyn um kvenfyrirlitningu og kröfðust þess að forseti þingsins ávítti hann, að sögn The Guardian. Talsmaður Verkamannaflokksins hafnaði því algerlega að Corbyn hefði kallað May heimska. Þess í stað hafi hann muldrað „heimska fólk“ um þingmenn Íhaldsflokksins almennt.

John Bercow, forseti þingsins, segist ætla að fara yfir sjónvarpsupptökuna áður en hann tekur afstöðu til krafna þingmannanna.

Í myndbandi Sky hér fyrir neðan má sjá atvikið í breska þinginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×