Erlent

Fyrrum fangavörður á tíræðisaldri ákærður vegna Helfararinnar

Andri Eysteinsson skrifar
Frá minnismerkinu um Helförina í Berlín.
Frá minnismerkinu um Helförina í Berlín. Getty/Michel Setboun
95 ára gamall Berlínarbúi, Hans H, hefur verið ákærður af þýsku ákæruvaldinu grunaður um að hafa starfað sem fangavörður í útrýmingarbúðum Nasista í seinni heimsstyrjöld.

Maðurinn sem um ræðir er sagður hafa starfað í útrýmingarbúðunum Mauthausen í Austurríki frá miðju árinu 1944 til stríðsloka 1945. Mauthausen voru stærstu útrýmingarbúðirnar í Austurríki, um 190.000 manns var haldið þar föngnum á stríðstímanum. BBC greinir frá.

Ákærður fyrir aðild að 36.223 morðum

Talið er að um helmingur þeirra sem vistaðir voru í búðunum hafi verið myrtir. Hans H hefur verið ákærður fyrir aðild að 36.223 morðanna.

Mathausen, 20 km frá borginni Linz, var nýtt af Nasistum til að geyma óvini nasískra yfirvalda, menntamenn og hátt settir andstæðingar nasismans frá löndum sem Þjóðverjar lögðu undir sig voru fangelsaðir þar.

Saksóknari í Berlín segir ljóst að Hans H hafi vitað fullvel hvað gengi á í búðunum og hafi í það minnsta stutt gjörninginn þó hann hafi ekki framið morðin sjálfur.

Nú er það undir dómstólum í þýsku höfuðborginni komið hvort mál Hans H, verði tekið fyrir dómstólinn.

Ákæran ekki einsdæmi

Fleiri fyrrum fangaverðir úr seinni heimsstyrjöldinni á tíræðisaldri hafa verið ákærðir á síðustu árum.

Oskar Gröning og Reinhold Hanning, sem störfuðu í Auschwitz voru báðir sakfelldir árið 2016 og hlutu fjögurra og fimm ára fangelsisdóma.

Báðir létust þeir þó áður en afplánun þeirra hófst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×