Skoðun

Réttu barni bók

Lilja Alfreðsdóttir skrifar
Nú er tími vetrarfríanna hjá íslenskum grunnskólabörnum. Það er kærkomin tilbreyting að líta upp úr námsefninu bæði fyrir nemendur og kennara og vonandi gefst sem flestum færi á að njóta samverustunda í fríinu. Öll viljum við að börnin okkar njóti þeirra möguleika sem lífið hefur upp á að bjóða. Mikilvægt er að þau fái tækifæri til þess að þroskast og blómstra í fjölbreyttum verkefnum.

Lestrarfærni er lykill að lífsgæðum okkar og bækur grundvöllur símenntunar alla ævi. Við vitum að þeirri færni hefur farið hrakandi og ýmislegt hefur þegar verið gert til þess að snúa þeirri þróun við og efla læsi barna og unglinga.

Á dögunum kynntum við aðgerðir sem miða að því að styrkja stöðu íslenskrar tungu til framtíðar. Í liðinni viku mælti ég fyrir frumvarpi sem heimilar endurgreiðslu 25% kostnaðar vegna útgáfu bóka á íslensku. Þeirri aðgerð er ætlað að hvetja til aukinnar útgáfu bóka, á prenti og rafrænum miðlum og auka þannig framboð og fjölbreytni efnis fyrir íslenska lesendur.

Til þess að stuðla að bættu læsi þurfa allir aldurshópar, og ekki síst börn og ungmenni, að geta nálgast áhugavert og fjölbreytt lesefni á íslensku.

Gildi bókaútgáfu fyrir þróun tungumálsins okkar er óumdeilt. Útgáfa bóka er ein af mikilvægustu stoðum íslenskrar menningar.

Frá því að land var numið á Íslandi höfum við skrifað og lesið til að skilja okkur sjálf. Það er tungumálið okkar sem geymir þann galdur.

Íslenskan er okkar þjóðtunga og opinbert mál, og okkur ber að tryggja að hægt sé að nota hana á öllum sviðum þjóðlífsins. Til þess eru margar leiðir, sumar umfangsmiklar eins og sú innspýting fyrir íslenska útgáfu sem frumvarpið boðar. Aðrar eru einfaldari og kalla á hugarfarsbreytingu eða aukna meðvitund hjá okkur öllum, eins og að velja oftar að rétta barni bók.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×