Félög í eigu Ingibjargar Pálmadóttur eiga um 90 prósenta hlut í 365 miðlum hf. Ingibjörg er forstjóri 365 miðla en Jón Ásgeir Jóhannesson, eiginmaður hennar, hefur tekið virkan þátt í rekstrinum undanfarin ár.
Fjarskipti, nú Sýn, keypti allar eignir og rekstur 365 miðla í fyrra að undanskildum eignum er varða útgáfu Fréttablaðsins og tískutímaritsins Glamour. Meðal eigna eru Bylgjan, Stöð 2 og Vísir auk fleiri útvarps- og sjónvarpsstöðva auk fjarskiptaþjónustu.

Í tilkynningu, sem Fréttablaðið vísar til í morgun, segir að engin ákvörðun hafi verið tekin um hvort selja eigi hlut 365 í Torgi eða í Sýn. Hins vegar liggi fyrir að lengri tíma taki að selja óskráða eign en skráða. Því séu þessi skref tekin nú. Engar breytingar verða á daglegum rekstri Torgs eða Fréttablaðsins með þessu.
Flutningur skrifstofu Fréttablaðsins í miðborg Reykjavíkur er á næsta leiti en til stendur að flytja þær á Hafnartorg. Óvíst er um stöðu Glamour en ekki hefur verið ráðinn ritstjóri fyrir Álfrúnu Pálsdóttur sem lét af störfum fyrr í mánuðinum eftir fjögur ár í ritstjórastólnu, frá því blaðið kom fyrst út hér á landi.
Vísir er í eigu Sýnar.
Athugasemd frá Fréttablaðinu
Ólöf Skaftadóttir, einn ritstjóra Fréttablaðsins, vill árétta vegna fréttar Vísis að ekkert sé óljóst um stöðu Glamour. Þar starfi heil ritstjórn. Glamour verði ekki gefið út í október en það stafi af því að blaðið komi ekki út mánaðarlega. Ekki fengust upplýsingar um hver tæki við starfi ritstjóra.