Japönsk yfirvöld hafa í fyrsta skipti staðfest að starfsmaður við Fukushima-kjarnorkuverið hafi látist af völdum geislunar. Kjarnorkuverið fór illa út úr jarðskjálftanum mikla og flóðbylgjunni sem skall á landinu árið 2011.
Að sögn breska ríkisútvarpsins BBC var maðurinn á sextugsaldri. Banamein hans var lungnakrabbamein sem hann greindist með fyrir tveimur árum. Yfirvöld hafa áður staðfest að fjórir verkamenn í verinu hafi veikst af völdun geislunarinnar en þetta er fyrsta staðfesta dauðsfallið af völdum hennar.
Kjarnaofnar Fukushima-versins bræddu úr sér þegar kælikerfi skemmdist í hamförunum. Geislavirkt efni lak úr verinu.
Starfsmaðurinn sem lést hafði starfað í Fukushima frá árinu 1980. Hann sá um geislamælingar við einn kjarnaofninn skömmu eftir að hann bræddi úr sér. Hann varð fyrir geislun þrátt fyrir að hafa verið með andlitsmaska og klæddur í hlífðargalla. Fjölskyldu hans verða greiddar bætur frá ríkinu.

