Skoðun

Lífið gæti verið hljóðritað

Davíð Þorláksson skrifar
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur lagt fram til umsagnar frumvarp til laga um myndavélaeftirlit í sjávarútvegi til að fylgjast með hvort verið sé að brjóta lög. Gert er ráð fyrir að myndavélar fylgist með starfsfólki og vinnu þess um borð í fiskiskipum, höfnum, flutningatækjum, fiskvinnslum auk þess sem Fiskistofa mun reka flota af fjarstýrðum loftförum.

Verði frumvarpið að lögum er brotið blað í sögu eftirlitsiðnaðarins á Íslandi þar sem þessar tillögur eru af áður óþekktum skala. Samtök atvinnulífsins sögðu í umsögn sinni að enginn vafi væri á að næðu þessi áform fram að ganga myndu þau verða fyrirmynd annarra eftirlitsstjórnvalda og innan fárra ára gætu Íslendingar búið við eftirlitsþjóðfélag af áður óþekktri gerð.

Af hverju ætti þetta bara að gilda um sjávarútveginn? Mætti ekki t.d. líka sjá fyrir sér að Vinnueftirlitið væri með myndavélar á vinnustöðum til að tryggja að lögum væri fylgt þar? Til dæmis að allir væru örugglega að lyfta þungum hlutum með hnjánum, en ekki bakinu. Samkeppniseftirlitið gæti verið með myndavélar til að fylgjast með fólki sem tekur ákvarðanir um verð á vöru og þjónustu til að koma í veg fyrir samráð. Fjármálaeftirlitið gæti dekkað Borgartúnið með loftförum. Er einhver eðlismunur á þessu?

Eða kannski er bara einfaldast að ríkið fylgist með okkur öllum frá vöggu til grafar. Það mætti jafnvel slá tvær flugur í einu höggi og bæta kjör ljósmæðra með því að fela þeim aukin verkefni. Þær gætu einfaldlega tilkynnt öllum við fæðingu: „Vinsamlega athugið að lífið gæti verið hljóðritað.“




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×