Erlent

Breskur ráðherra segir af sér vegna kynferðislegra smáskilaboða

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Andrew Griffiths hefur setið á þingi fyrir breska Íhaldsflokkinn síðan árið 2010.
Andrew Griffiths hefur setið á þingi fyrir breska Íhaldsflokkinn síðan árið 2010. Mynd/Breska þingið

Andrew Griffiths, ráðherra í viðskiptaráðuneyti Bretlands, hefur sagt af sér embætti vegna kynferðislegra smáskilaboða sem hann sendi tveimur konum. Greint er frá afsögn hans á vef breska dagblaðsins Mirror.

Í yfirlýsingu sem Griffiths sendi blaðinu segir að hann skammist sín gríðarlega fyrir athæfið. Gjörðir hans hafi valdið eiginkonu hans og fjölskyldu ómældri streitu og þeim eigi hann „allt að þakka“.

Þá kemur hann skömm sinni einnig á framfæri við forsætisráðherra Bretlands, Theresu May, og ríkisstjórn hennar. Hann segist enn fremur ekkert eiga sér til málsbóta og hyggst leita sér hjálpar.

Fyrstu fréttir bárust af málinu á laugardagskvöld en Griffiths sagði þó formlega af sér á föstudagskvöld, að því er fram kemur í yfirlýsingu hans. Hann hefur auk þess gefið sig fram við siðanefnd breska Íhaldsflokksins.

Samkvæmt frétt Mirror verður innihald smáskilaboðanna birt í sunnudagsblaðinu. Blaðamaður BBC hefur heimildir fyrir því að skilaboðin hafi verið afar dónaleg.

Griffiths hefur setið á þingi fyrir flokkinn síðan árið 2010. Honum og May er vel til vina en hann gegndi stöðu starfsmannastjóra hennar er hún sat í stjórnarandstöðu. Griffiths er auk þess tiltölulega nýbakaður faðir en hann og eiginkona hans, Kate, eignuðust stúlku í apríl síðastliðnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×