Fótbolti er ástríða í Argentínu og pressan á argentíska liðinu fyrir HM í Rússlandi var eftir því.
Messi og félagar áttu að verða heimsmeistarar, það dugði ekkert minna, en þær væntingar eru nú að öllum líkindum orðnar að engu eftir að liðið tapaði 3-0 fyrir Króatíu í gær.
Argentískir fjölmiðlar voru ekki par hrifnir af frammistöðu sinna manna á móti Íslandi og það kveður svipaðan tón nú eftir Króatíuleikinn, þó ef til vill öllu harðari.
„Liðið var stefnulaust á HM og það versta er að enginn virtist tilbúinn til þess að bjarga því,“ segir í fyrirsögn á vef argentíska blaðsins Clarín þar sem umfjöllunin heldur áfram á þennan veg:
„Enn á ný hjálpaði Sampaoli ekki til, Messi var skugginn af sjálfum og liðsfélagar hans birtust ekki. Argentína verður að vinna Nígeríu og vona það besta varðandi önnur úrslit.“
Á vef La Nación er einnig ritað um þá staðreynd að örlög argentíska liðsins eru ekki í höndum þeirra sjálfra:
„Í höndum þriðja aðila. Landsliðið þarf nú að reiða sig á úrslitin í öðrum leikjum til að komast í 16 liða úrslitin. Að í dag eftir hádegi vinni Nígería Ísland svo að það ráðist í leiknum gegn Nígeríumönnum hver fer áfram.“
Messi fær síðan sinn skerf af gagnrýni á vef La Gaceta.
„Ef Messi vantaði eitthvað þá var það að leika illa. Svona illa,“ segir í grein La Gaceta sem ber titilinn „Messi var ekki á staðnum.“
Vanda argentíska liðinu ekki kveðjurnar: „Messi var skugginn af sjálfum sér“

Tengdar fréttir

Hvað þýðir stórsigur Króatíu fyrir strákana okkar?
Markatala gæti ráðið úrslitum um hvort að Ísland komist áfram í 16-liða úrslitin á HM í Rússlandi.

Króatía komið áfram eftir stórsigur gegn Argentínu
Króatía er komið áfram í 16-liða úrslit HM 2018 eftir 3-0 sigur á Argentínu í viðureign liðanna í riðli okkar Íslendinga í kvöld.