Erlent

Maður sem ók á fólk í Charlottesville ákærður fyrir hatursglæpi

Kjartan Kjartansson skrifar
Bíllinn sem Fields ók inn í hóp gagnmótmælenda. Hann drap eina konu og slasaði fjölda annarra.
Bíllinn sem Fields ók inn í hóp gagnmótmælenda. Hann drap eina konu og slasaði fjölda annarra. Vísir/Getty
Rúmlega tvítugur karlmaður sem ók inn í hóp gagnmótmælenda samkomu hvítra þjóðernissinna í borginni Charlottesville í Bandaríkjunum í fyrra hefur verið ákærður fyrir hatursglæpi. Kona lést þegar maðurinn ók bíl sínum yfir hana.

James A. Fields yngri er ákærður fyrir hatursglæp sem leiddi til dauða Heather Heyer, 32 ára gamals gagnmótmælanda og 28 hatursglæpi til viðbótar sem ollu alvarlegu líkamstjóni og voru tilraun til manndráps að mati dómsmálaráðuneytis Bandaríkjanna.

Hvítir þjóðernissinnar, nýnasistar, Ku Klux Klan-liðar og aðrir hægriöfgamenn komu saman í Charlottesville í Virginíu í ágúst í fyrra. Að nafninu til var tilefni samkomunnar mótmæli gegn því að yfirvöld hygðust fjarlægja styttu af Robert E. Lee, herforingja suðurríkjanna úr bandaríska borgarastríðinu. Öfgamennirnir hrópuðu ýmis hatursslagorð, þar á meðal gegn gyðingum og samkynhneigðum.

Til átaka kom á milli þeirra og gagnmótmælenda sem andæfðu kynþáttahatri og slógust fylkingarnar á torgum og götum. Þau enduðu með því að Fields ók bíl sínum inn í hóp gagnmótmælenda í göngugötu.

Jeff Sessions, dómsmálaráðherra, sagði í yfirlýsingu í dag að ákæran gegn Fields sendi skýr skilaboð til allra þeirra sem hygðu á glæpi í Bandaríkjunum að þeir yrðu sóttir til saka af hörku fyrir hatursglæpi sem ógnuðu grunngildum þjóðarinnar.

Yfirmaður Sessions, Donald Trump forseti, var sakaður um að senda ekki skýr skilaboð í kjölfar atburðanna í Charlottesville. Trump þagði þunnu hljóði um atburðina í nokkra daga. Eftir að hafa með semingi sent frá sér yfirlýsingu þar sem hann fordæmdi ofbeldið kenndi Trump „báðum hliðum“ um ofbeldið.


Tengdar fréttir

Repúblikanar andæfa fordómum og Trump forseta

Margir háttsettir repúblikanar hafa gagnrýnt furðuleg ummæli Donalds Trump forseta um óeirðirnar í Charlottesville í gær. Helstu leiðtogar þeirra hafa þó hikað við að beina spjótum sínum beint að forsetanum.

Ku Klux Klan-liði handtekinn vegna Charlottesville

Tveir hvítir þjóðernissinnar hafa verið handteknir vegna ofbeldisfullrar samkomu þeirra í Charlottesville í Bandaríkjunum um miðjan mánuðinn og þess þriðja er leitað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×