Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, hefur lagt til við bæjarstjórn þar í bæ að laun kjörinna fulltrúa, þar á meðal bæjarstjóra, verði lækkuð um 15 prósent. Launaþróun kjörinna fulltrúa, og þá einkum Ármanns sjálfs, hefur sætt nokkurri gagnrýni undanfarnar vikur og mánuði.
Í fréttatilkynningu undirritaðri af Ármanni kemur fram að tillagan hafi verið samþykkt í bæjarstjórn í gær. Var henni að því búnu vísað til forsætisnefndar með öllum greiddum atkvæðum.
Sjá einnig: Laun Ármanns fram úr hófi
Eins og áður sagði hefur úrskurður kjararáðs um hraustlega hækkun á launum þingmanna verið harðlega gagnrýnd en sú hækkun hafði áhrif á sveitarstjórnarstigið.
Laun Ármanns, sem er einn launahæsti bæjarstjóri landsins, hækkuðu um 32,7 prósent milli áranna 2016 og 2017 og fékk hann alls tæpar 2,5 milljónir á mánuði í fyrra fyrir bæjarstjórastarfið. Þá hækkuðu laun fulltrúa í bæjarstjórn og bæjarráði Kópavogsbæjar sömuleiðis um 20 prósent.
Greinargerð um tillögu Ármanns má sjá í heild hér að neðan:
Í kjölfar úrskurðar kjararáðs um kjör þingmanna samþykkti bæjarstjórn Kópavogs á nýliðnu kjörtímabili að hækka laun kjörinna fulltrúa og bæjarstjóra hjá Kópavogsbæ. Hækkunin tók þó ekki mið af úrskurði kjararáðs heldur var hækkunin lægri en þar var kveðið á um og tók þess í stað mið af þróun launavísitölu á vinnumarkaði. Engu að síður hefur komið fram gagnrýni á launaþróun þessara aðila sem og kjör annarra kjörinna fulltrúa í landinu m.a. af hálfu forystufólks á vinnumarkaði. Því er lagt til að launin lækki í upphafi kjörtímabils um 15% frá því sem þau eru nú.
Margrét Friðriksdóttir lagði til að tillögu Ármanns Kr. Ólafssonar verði vísað til úrvinnslu forsætisnefndar. Var það samþykkt með 11 atkvæðum.
