Skoðun

Vöxtur og verðmæti

Guðjón S. Brjánsson skrifar
Utanríkisráðherra hafði orð á því í ræðustól Alþingis fyrir nokkrum vikum að til þess að viðhalda óbreyttum vexti í hagkerfinu þyrftu Íslendingar að auka verðmæti útflutnings í næstu framtíð um einn milljarð á viku. Það þarf nokkuð til en það vantar ekkert á að menn vilji svara kallinu.

Á dögunum heimsótti ég Vestfirði eins og oft áður. Lífið er þar gott og ánægjulegt að hitta mann og annan. Þó er vel merkjanlegur sá andi meðal íbúanna fyrir vestan, að staða þeirra og varnarbarátta sé ekki metin af sanngirni eða af skilningi. Í sögulegu samhengi hafa Vestfirðingar verið veitendur, verið sjálfbjarga, vilja það og geta.

Ný atvinnugrein er á hraðri uppleið á suðurfjörðum Vestfjarða. Laxeldi er nú í fjórum fjörðum allt norður í Dýrafjörð. Í Ísafjarðdjúpi stendur hnífurinn hins vegar í kúnni. Hælarnir eru settir niður. Búin eru til skyndimódel og líkön sem torvelda markmið heimamanna um að hefja hæga og markvissa uppbyggingu. Hún er þó reyndar löngu hafin, því gamalgróið útgerðarfyrirtæki hefur um árabil stundað fiskeldi á þessu svæði. Það eru umdeild, veik og óásættanleg rök sem tefja viðleitni til uppbyggingar á svæðinu.

Þau fyrirtæki sem koma að laxeldi kalla eftir skýrri löggjöf, regluverki og alvöru eftirliti en á það skortir verulega eins og dæmi sýna. Enn er líka á reiki hvernig gjaldtöku verður háttað af sameiginlegri strandsjávarauðlind. Þarna eru stjórnvöld með buxurnar á hælunum og á meðan fá hindurvitni, stóryrði og rangfærslur að óma um allt samfélagið.

Útflutningsverðmæti afurða laxeldisfyrirtækja á Vestfjörðum nálgast 10 milljarða á þessu ári. Til samanburðar námu heildarverðmæti á útfluttu, hefðbundnu sjávarfangi um 110 milljörðum árið 2017. Þessi atvinnuvegur skiptir því máli. Það skiptir miklu að við sköpum trausta umgjörð um greinina, umgjörð sem byggir á fagmennsku, vísindum, óyggjandi rannsóknum, varfærni og sanngirni gagnvart fólki í byggðarlögunum. Þarna hafa stjórnvöld hlutverki að gegna og þau þurfa að taka sig á.

Höfundur er alþingismaður




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×