Skoðun

Setjum iðnnám í öndvegi

Guðrún Hafsteinsdóttir skrifar
Gríðarleg eftirspurn er hér á landi eftir iðnmenntuðu starfsfólki. Á sama tíma erum við langt á eftir öðrum þjóðum hvað varðar ásókn í iðnnám. Þessi þróun hefur verið að eiga sér stað yfir langan tíma. Við höfum leyft okkur að vanrækja iðnnámið en ýta á sama tíma undir bóknám.

Í lögum um grunnskóla nr. 91/2008, nánar tiltekið í 24. grein, er kveðið á um að jafnvægi skuli vera á milli bók- og verklegs náms innan grunnskólanna. Þarna virðist víða pottur vera brotinn. Margir verknámskennarar hafa lýst yfir áhyggjum sínum vegna þekkingarskorts nemenda í verklegum greinum þegar nemendur koma inn í framhaldsskólana. Nýverið mátti lesa viðtal við skólastjóra í Reykjavík sem hefur ákveðið að segja upp stöðu sinni vegna ómarkvissrar stefnu stjórnvalda í menntamálum. Margt af því sem þessi ágæti skólamaður nefnir á því miður við rök að styðjast. Okkur skortir stefnu og okkur skortir sýn. Hvernig ætlum við að bregðast við því hæfnimisræmi sem skapast hefur hér á landi milli þarfa atvinnulífsins og hæfni nemenda sem útskrifast?

Samkvæmt nýlegri könnun sem Samtök iðnaðarins létu gera meðal félagsmanna nefndi yfirgnæfandi meirihluti að fyrirtæki þeirra þyrftu á fólki að halda með iðnmenntun. Ef við ætlum að byggja hér upp samkeppnishæft atvinnulíf verðum við að setja iðnnám í öndvegi og leggja aukna áherslu á kennslu verklegra greina í grunnskólum landsins. Við verðum að sjá til þess að það sé samfella í iðnnámi þannig að nemendur geti lokið námi á réttum tíma án hindrana. Atvinnulífið verður að taka á sig ábyrgð og bjóða iðnnemum námssamninga á vinnustöðum sínum þannig að tryggt sé að nemendur geti lokið sveinsprófi.

Það er ljóst að við erum að gera eitthvað rangt á grunnskólastiginu varðandi námsáherslur. Við þurfum að leggja mun meiri áherslu á kennslu verklegra greina allt frá 1. bekk grunnskóla sem gæti skilað iðnmenntuðu fagfólki sem atvinnulífið tekur fagnandi.

Höfundur er formaður Samtaka iðnaðarins




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×