Lögregla hefur lokið rannsókn sinni á máli stuðningsfulltrúa hjá Reykjavíkurborg sem grunaður er um kynferðisbrot gegn sjö börnum. Málið var sent héraðssaksóknara fyrir páska að sögn Huldu Elsu Björgvinsdóttur, yfirmanns ákærusviðs hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. RÚV greindi fyrst frá.
Hulda Elsa segir að fjöldi brotaþola í málinu sé sjö. Maðurinn er enn í gæsluvarðhaldi á grundvelli almannahagsmuna. Má reikna með því að hann verði í gæsluvarðhaldi þar til málinu líkur. Héraðssaksóknari skoðar nú málið og metur hvort ákært verði í því eða ekki.
Vistheimilið sem maðurinn starfaði á var rekið af Barnavernd Reykjavíkur. Talið var að maðurinn hefði unnið með 150-200 börnum á heimilinu en þau brot sem hann er sakaður um munu ekki hafa átt sér stað á vistheimilinu heldur utan þess.
Maðurinn var fyrst tilkynntur vegna gruns um kynferðisbrot árið 2008. Mistök starfsmanns borgarinnar urðu til þess að málið fór ekki lengra í ferlinu. Maðurinn var kærður í ágúst en ekki handtekinn fyrr en í janúar.
Málið vakti mikla athygli í byrjun árs og gagnrýndi réttargæslumaður piltsins lögreglu harðlega fyrir hve seint var brugðist við kærunni.
