Innlent

Ákærður fyrir áralöng brot gegn dætrum sínum

Kjartan Kjartansson skrifar
Hæstiréttur staðfesti gæsluvarðhald yfir manninum á grundvelli almannahagsmuna.
Hæstiréttur staðfesti gæsluvarðhald yfir manninum á grundvelli almannahagsmuna. Vísir
Karlmaður sem setið hefur í gæsluvarðhaldi frá því í lok október hefur verið ákærður fyrir gróf kynferðisbrot gegn tveimur dætrum sínum um árabil. Stundin greinir frá þessu.

Vísir hefur fjallað ítarlega um kynferðisbrot mannsins gegn þremur dætrum sínum. Hann var sakfelldur fyrir kynferðisbrot gegn elstu dóttur sinni árið 1991 en hún var þá fimm til sex ára gömul. Maðurinn hlaut þá tíu mánaða fangelsisdóm.

Hann var svo handtekinn í haust, grunaður um kynferðisbrot gegn tveimur öðrum dætrum sínum. Síðan þá hefur hann setið í gæsluvarðhaldi á grundvelli almannahagsmuna. Meint brot hans geta varðað allt að sextán ára fangelsi.

Stundin greinir frá því í dag að héraðssaksóknari hafi nú ákært manninn. Samkvæmt ákærunni braut hann gegn dætrum sínum þegar önnur þeirra var á aldrinum fimm til tólf ára en hin á aldrinum sjö til níu ára. Þau áttu sér stað bæði á Íslandi og Taílandi.

Þá er hann ákærður fyrir að hafa brotið gegn nálgunarbanni með því að hafa hitt eina dótturina af ásettu ráði í verslunarmiðstöð árið 2016.

Félagsmálastjóri í sveitarfélaginu þar sem fólkið býr á Suðurlandi tilkynnti meint brot föðurins gagnvart yngstu dóttur sinni til lögreglu 2. október. Mun stúlkan hafa greint frá því í skýrslutöku hjá lögreglu að faðirinn hafi í það minnsta þrisvar sinnum haft samfarir við hana þegar hún var á aldrinum fimm til sex ára. Þá bjó fjölskyldan í Taílandi.

Frásögn næstelstu dótturinnar er sögð áþekk. Faðirinn hafi brotið á henni á heimili þeirra í Taílandi þegar hún var fimm til sex ára. Maðurinn neitar sök í málunum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×