Ræða Emmu Gonzalez, eins nemendanna sem komst lífs af úr skotárásinni, vakti mikla athygli á fjöldafundi sem haldinn var í Fort Lauderdale í Flórída í gær. Gonzalez gagnrýndi viðbrögð stjórnmálamanna við skotárásinni harðlega og kallaði eftir aðgerðum frá Bandaríkjaforseta, Donald Trump.
Ganga til að halda lífi
Nú hefur hópur nemenda MS Douglas-framhaldsskólans tilkynnt að þeir boði til enn stærri mótmæla en þeirra sem haldin voru í Fort Lauderdale í gær. Laugardaginn 24. mars næstkomandi verður haldin kröfuganga í Washington D.C., höfuðborg Bandaríkjanna, undir yfirskriftinni „March for our lives“ eða „Göngum til að halda lífi“. Þá verða skipulagðar göngur í fleiri borgum þennan dag.

„Fólk segir að nú sé ekki rétti tíminn til að tala um herta byssulöggjöf. Og við getum virt það,“ sagði Kasky.
„Hér er dagsetning. 24. mars í hverri einustu borg. Við ætlum að ganga saman sem nemendur og grátbiðja um að halda lífi.“
Vilja hitta Repúblikana
Þá sagði Kasy að málefnið væri ekki spurning um flokkapólitík heldur snerist um ábyrgð hinna fullorðnu, sem hingað til hefðu vanrækt börn í Bandaríkjunum með aðgerðarleysi í málaflokknum. Nemendurnir vilja auk þess hitta Donald Trump, Bandaríkjaforseta, þingmanninn Marco Rubio og ríkisstjóra Flórída, Rick Scott, og ræða við þá um byssulöggjöfina og fjárframlög NRA til stjórnmálamanna.
Nemendur við MS Douglas-framhaldsskólann hafa verið áberandi á samfélagsmiðlum og í fréttum fjölmiðla vestanhafs í kjölfar skotárásarinnar á miðvikudag. Árásarmaðurinn, fyrrverandi nemandi við skólann, myrti 17 manns og hefur játað á sig verknaðinn.