
Hildigunnur segir SAk þurfa á annað hundrað milljónir króna til að laga launabilið milli stofnananna. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður VG í kjördæminu sem situr í fjárlaganefnd, er sammála því að úrbóta sé þörf.
„Ég tek undir þetta, miðað við þau gögn sem við fengum fyrir jól, þá vantar um 165 milljónir króna. Það er augljóst að við þurfum að taka á þessu, við getum ekki haft þetta svona. Ég tel að sjúkrahúsið hafi setið eftir,“ segir Bjarkey.
Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir einnig mikilvægt að ríkisstofnanir landsins njóti sömu stöðu hvar sem þær eru á landinu. „Þetta er algjörlega ótækt að mínu mati. Ríkisstofnanir hér á landi eiga að búa við jafnræði óháð staðsetningu. Því legg ég ríka áherslu á að þetta verði lagfært.“
Um átta hundruð til þúsund menntaðir hjúkrunarfræðingar starfa utan greinarinnar. „Það er mín skoðun að við þurfum að hækka laun til að draga þessa hjúkrunarfræðinga að,“ segir Hildigunnur. „Með því að fá meira fjármagn inn getum við lokkað inn til okkar unga hjúkrunarfræðinga því launin eru það fyrsta sem þarf að laga.“