Stjórnvöld í Bandaríkjunum hafa bannað öll viðskipti með eignir tveggja háttsettra embættismanna Norður-Kóreu. Í frétt breska ríkisútvarpsins segir að mennirnir, Kim Jong-sik og Ri Pyong-chol, hafi gegnt lykilhlutverki í þróun kjarnavopna Norður-Kóreu.
Vísað er í tilkynningu frá fjármálaráðuneyti Bandaríkjanna. Þar segir að bann verði lagt á öll viðskipti mannanna tveggja í Bandaríkjunum og allar eignir, sem þeir kynnu að eiga þar í landi, kyrrsettar.
Með refsiaðgerðunum vilja bandarísk stjórnvöld uppfylla markmið sitt um „kjarnorkulausan Kóreuskaga,“ að því er haft er eftir Steven Mnuchin, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, í tilkynningunni sem send var út í dag. Þá er Kim Jong-sik sagður lykilmaður í eldflaugaþróun Norður Kóreu, einkum þeirri þróun er lýtur að eldsneyti flauganna, og Ri Pyong-chol er talinn gegna lykilhlutverki í þróun langdrægra eldflauga.
Eldflaugasérfræðingur og fyrrverandi hershöfðingi
Refsiaðgerðirnar eru enn fremur sagðar framhald af ályktun Bandaríkjamanna sem samþykkt var samhljóða í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna síðastliðið föstudagskvöld. Í henni er kveðið á um aðgerðir til að draga úr olíubirgðum Norður-Kóreu um allt að 90 prósent og þá var öllum Norður-Kóreumönnum sem vinna erlendis gert að snúa til síns heima innan 24 mánaða. Tilefni téðra refsiaðgerða eru ítrekaðar eldflauga- og kjarnorkutilraunir stjórnvalda í Pjongjang, höfuðborg Norður-Kóreu.
Utanríkisráðuneyti Norður-Kóreu sagði hertar þvinganir sem öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti gegn þjóðinni vera stríðsyfirlýsingu.
Í úttekt Reuters-fréttaveitunnar, sem gerð var í maí síðastliðnum, segir enn fremur að annar embættismannanna, Ri Pyong-chol , sé fyrrverandi hershöfðingi og menntaður í Rússlandi. Kim Jong-sik er sagður gamalreyndur eldflaugasérfræðingur. Báðir hafa þeir ítrekað verið myndaðir við hlið Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu, þegar eldflaugum er skotið á loft.
Kyrrsetja eignir háttsettra eldflaugasérfræðinga Norður-Kóreu

Tengdar fréttir

Norður-Kórea segir hertar þvinganir vera stríðsyfirlýsingu
Á vef Reuters er greint frá yfirlýsingu ráðuneytisins en þar er því haldið fram að þeim sem studdu þessar hertar þvinganir verði refsað.

Rússar bjóðast til að miðla málum í deilu Bandaríkjanna og Norður-Kóreu
Rússar segjast vilja koma á sáttum milli Norður-Kóreu og Bandaríkjanna ef bæði ríkin eru reiðubúin til þess.

Öryggisráðið samþykkti hertar aðgerðir gegn Norður-Kóreu
Tillaga Bandaríkjamanna um hertar refsiaðgerðir var samþykkt samhljóða.

Norður-Kórea fordæmir glæpsamleg Bandaríkin
Utanríkisráðuneyti einræðisríkisins sakaði Donald Trump forseta um að leitast eftir algjörri undirokun heimsbyggðarinnar með þjóðaröryggisstefnu sinni.