Skoðun

Sýnum iðnnámi virðingu

Sigurður Hannesson skrifar
Viðhorfsbreytinga er þörf gagnvart iðn- og starfsnámi á Íslandi. Hér á landi er hægt að velja úr fjölbreyttum iðngreinum sem allar skipta miklu máli fyrir samfélagið. Við viljum fagfólk og fagleg vinnubrögð á öllum sviðum. Skortur er á iðnmenntuðu starfsfólki á vinnumarkaði og því mikilvægt að hvetja ungmenni til að sækja sér dýrmæta þekkingu í fjölbreyttu iðnnámi. Undanfarin misseri hafa umbætur verið gerðar á náminu sjálfu og það lagað að nútímanum. Fyrirkomulag á að vera skýrara og öryggi nemenda aukið, svo þeir hafi við upphaf náms vissu fyrir því að geta lokið námi óháð aðstæðum hjá iðnmeisturum. Þá er unnið að því að brúa bilið milli iðnnáms og háskólanáms sem eykur möguleika á frekari menntun síðar meir.

Um árabil hafa ráðamenn talað um að efla iðnmenntun í landinu, en velviljinn hefur ekki dugað til. Viðhorf þeirra í garð iðn- og starfsmenntunar er framþróun til trafala. Þau birtust okkur fyrir skemmstu þegar í ljós kom að erlendir iðnnemar fá ekki lengur dvalarleyfi til náms á Íslandi eftir breytingu á útlendingalögum. Nám í skilningi laganna er eingöngu nám á háskólastigi. Frumvarpið var samþykkt mótatkvæðalaust á Alþingi 2016.

Hér á landi skráðu einungis 14% nemenda sig á starfsnámsbrautir að loknum grunnskóla haustið 2007 en sambærilegt hlutfall meðal ríkja Evrópusambandsins var 50%. Viðhorfsbreytingu og aukið fjármagn til verknámsskóla þarf til að bæta úr. Menntakerfið þarf að vera sveigjanlegt þegar fólk hefur störf við tiltekna iðn og aflar sér svo réttinda og þekkingar síðar þegar ákveðinni færni er náð og áhuginn á iðninni er staðfestur.

Það ætti að vera eitt af fyrstu verkum nýs þings að efla iðnnám og leiðrétta þau mistök sem gerð voru samhliða breytingum á útlendingalöggjöfinni á síðasta ári svo iðnnám standi jafnfætis háskólanámi. Viðhorfsbreytingin þarf að eiga sér stað víða í samfélaginu og væri óskandi að ráðamenn þjóðarinnar færu fremstir í flokki og hömpuðu iðnnámi. Það þarf að auka veg þess og virðingu.

 

Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×