Skoðun

Baráttan gegn ofbeldi á konum og heimilisofbeldi heldur áfram

Svandís Svavarsdóttir skrifar
Kynbundið ofbeldi hefur verið mikið á dagskrá nú í sumar og haust og ekki síst í tengslum við mál það sem varð ríkisstjórninni að falli. Þung undiralda kvenfrelsissjónarmiða og femínískra byltinga fangaði kröfuna um að uppreist æra kynferðisbrotamanns yrði endurskoðuð og ekki síst að starfsréttindi hans yrðu ekki afhent án fyrirstöðu.

Það er ekki ofsögum sagt að fall þessarar ríkisstjórnar verður af þessum sökum kafli í kvenfrelsissögu Íslands. Brotaþolar höfðu hátt og kröfðust áheyrnar kerfisins og stjórnmálamanna meira en nokkru sinn fyrr. Með stuðningi fjölmiðla varð þrýstingurinn meiri en svo að ríkisstjórnin þyldi hann og endaði með því að hún fór frá. Við stefnum nú á alþingiskosningar aðeins ári frá síðustu kosningum og þær kosningar eru haldnar í þessu ljósi.

Árið 2011 var Istanbúl-samningurinn undirritaður af hálfu Íslands en um er að ræða samning Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi á konum og heimilisofbeldi. Ofbeldi gegn konum, þar með talið heimilisofbeldi, er ein alvarlegasta tegund kynbundinna mannréttindabrota sem um getur og samfélagsmein hvar sem þess gætir. Istanbúl-samningurinn skuldbindur aðildarríkin til að gera ráðstafanir gegn ofbeldi gegn konum og er því mikilvægt að hann verði fullgiltur hér á landi og þær breytingar gerðar á lögum sem fullgildingin krefst.

Fyrir liggur greinargerðin Skýrsla um samning Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi á konum og heimilisofbeldi og aðlögun íslenskra laga og reglna vegna aðildar frá haustinu 2012 sem gerð var á vegum Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands. Undirbúningur að fullgildingu Istanbúl-samningsins er þannig kominn nokkuð á veg og sjálfsagt að halda honum áfram og ljúka verkinu eins fljótt og auðið er.

Þegar Alþingi var slitið á dögunum lá fyrir að þau mál sem lúta að kynbundnu ofbeldi af ýmsu tagi hlytu að vera í brennidepli þessarar kosningabaráttu. Um það leyti voru fjöldamörg þingmál í burðarliðnum og þar á meðal þingmál sem laut að því að fullgilda Istanbúl-samninginn en tekist hafði að fá meðflutningsmenn í öllum flokkum utan einum. Því liggur fyrir að slíkt mál hlýtur að verða hluti af stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar.

 

Höfundur er formaður þingflokks Vinstri grænna.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×