Skoðun

Ekkert annað skiptir raunverulega máli

Kári Stefánsson skrifar
Stundum er það kýrskýrt að við sem þjóð meinum ekki endilega það sem við segjum í þeim lögum og reglum sem við notum til þess að stjórna samfélaginu eða að okkur er í það minnsta þvert um geð að fylgja þeim. Hér á ég ekki við þá augljósu staðreynd að það koma augnablik í lífi flestra að þeim finnst eins og það væri hentugt að reglurnar giltu um hegðun allra annarra en þeirra sjálfra. Ég er að tala um sögulegar stundir þegar sá samnefnari sem við köllum þjóð á erfitt með að sætta sig við reglur sem hún hefur sett sér sjálf.

Gott dæmi um þetta má finna í nýlegri umræðu um barnaníðinga tvo og æruleysi þeirra sem leiddi til þess að ríkisstjórn Lýðveldisins hrökklaðist frá völdum. Umræðan sýnir fram á svo ekki verður um villst að þjóðinni finnst ósanngjarnt að refsingu þeirra hafi verið lokið þegar þeim var sleppt úr fangelsi. Það sem meira er, henni finnst eins og þeir sem hafa léð nafn sitt við þá skoðun hafi með því framið glæp sem jafnist næstum á við þá sem framdir voru af níðingunum sjálfum.

Eitt af því sem gerir þessa umræðu athyglisverða er að þeir sem gjarnan tjá sig sem fulltrúar frjálsræðis, umburðarlyndis og mildi í samfélaginu eru þeir sem virðist mest í mun að láta skúrkana tvo brenna í helvíti áframhaldandi refsingar. Það liggur við að það megi lesa út úr orðum þeirra að þeim hefði fundist dauðarefsing við hæfi í málum níðinganna. Ég verð líka að viðurkenna að þegar ég velti því fyrir mér um daginn hvað ég hefði gert ef níðingarnir hefðu veist að afkomanda mínum þá var ég handviss um að ég hefði drepið þá með berum höndunum. Glæpir þessara manna eru svo ólýsanlegir, óásættanlegir, ógeðslegir og framdir gegn því sem við eigum fallegast, saklausast og dýrmætast á jörðu hér, börnum. Glæpir þeirra eru þess eðlis að þeir æra ekki bara óstöðuga, þeir æra okkur öll.

Ég held að okkur standi ekki annað til boða en að breyta lögum og reglum sem lúta að því hvernig við sem þjóð förum með barnaníðinga. Núgildandi reglur senda röng skilaboð í allar áttir. Þær gefa það í skyn að samfélagið geti að vissu leyti fyrirgefið níðingunum eftir að þeir eru búnir að afplána skamma fangelsisvist. Er nema von að sómakært fólk hafi stutt með bréfum þá tillögu að einstakir meðlimir í stéttarfélagi barnaníðinga gætu endurheimt ákveðin mannréttindi. Lög og reglur og hefð gáfu þeim fulla ástæðu til þess að ætla að þjóðin væri reiðubúin til þess að fyrirgefa þessum óþverrum og það er óheppilegt að pólitískir hugsjónamenn skuli eyða púðri í að áfellast það fyrir þetta vegna þess að það dregur athyglina frá aðalatriðinu sem eru fórnarlömb níðinganna sem þarf að hlúa að og börn almennt sem þarf að verja fyrir þeim. Ekkert annað skiptir raunverulega máli. Það er líka alrangt að það hafi verið gerð sérstökt tilraun til þess að leyna nöfnum þeirra sem studdu til mannréttinda níðingana tvo sem hafa verið í umræðunni upp á síðkastið. Það var farið með þeirra mál á þann máta sem tíðkast hefur um langan tíma. Sá máti er að vísu ekkert sérstaklega viðeigandi. Leyndarhyggjan sem skiptir máli er sú sem umlykur sakaskrána sem er ekki lengur opinbert plagg sem við getum notað til þess að taka ákvörðun um það hvort við eða börnin okkar umgöngumst þá sem hafa brotið gegn öðrum börnum, barið fólk og limlest eða hagað sér á annan þann máta að það er ekki á þá hundum sigandi.

Þegar við breytum lögum og reglum sem lúta að barnaníðingum er vert að hafa eftirfarandi í huga:

Rannsóknir sýna að fórnarlömb barnaníðinga eru 25 sinnum líklegri til þess að þjást af alvarlegu þunglyndi um ævi sína alla en þeir sem hafa ekki lent í klónum á þessum óþverrum. Þau eru því margfalt líklegri til þess að finnast líf sitt ekki þess virði að lifa því og fremja sjálfsmorð. Það er því harla lítið réttlæti í því fyrir fórnarlömbin að dæma níðinga í fjögurra ára fangelsi, sleppa þeim síðan út eftir tvö ár vegna þess að þeir hafi hagað sér svo vel innan veggja þar sem eru engin börn.

Rannsóknir sýna líka að þeir sem þjást af fíkn í börn læknast ekki, aldrei. Börnum stafar því alltaf hætta af þeim sem hafa leitað á börn. Það verður því að hafa í huga að þegar níðingunum er sleppt úr haldi er verið að taka áhættu á kostnað barna og við verðum að gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að sú hætta verði ekki að lífstíðarlemstrun á saklausri barnssál.

Glæpur barnaníðingsins er ekki bara glæpur gegn einstöku fórnarlambi þótt hann sé stærstur þar, hann er líka glæpur gegn okkur sem samfélagi og hefur áhrif á afstöðu okkar til miklvægra þátta í mannlegu eðli eins og fyrirgefningarinnar. Það er vont að sitja uppi með þá vissu að það sé ekki alltaf hægt að fyrirgefa en ég fæ hreinlega ekki séð ástæðu til þess að fyrirgefa níðingnum, nokkurn tíma.

Mér fyndist í samræmi við þá afstöðu sem þjóðin hefur tjáð upp á síðkastið að barnaníðingar yrðu aldrei dæmdir til skemmri fangelsisvistar en sextán ára og að henni lokinni yrðu þeir skyldaðir til þess að ganga um þannig merktir að það færi ekki framhjá nokkru barni. Það er að vísu bæði frumstætt og ljótt að brennimerkja menn en það vegur ekki þungt í mínum huga miðað við hættuna á frekari glæpum þeirra gegn börnum. Í því sambandi ber að hafa í huga að níðingurinn gerir gjarnan ýmislegt til þess að villa á sér heimildir að fangelsisvist lokinni eins og að breyta um nafn.

Umræðan um níðingana tvo hefur ekki að öllu leyti verið slæm vegna þess að í henni hefur birst væntumþykja fyrir barninu í þjóðinni allri, barninu sem er og barninu sem var. Umræðan ætti líka að vera okkur tækifæri til þess að beina sjónum að öðru því sem bjátar á hjá börnum á Íslandi og við höfum tækifæri til þess að laga. Okkur er sagt að það búi sex þúsund börn á Íslandi undir fátæktarmörkum. Rétt handan við hornið eru þingkosningar og hlutverk okkar kjósenda er að krefjast þess að betur verði hlúð að leikskólum og gunnskólum landsins til þess að þeir geti staðið sig sómasamlega í að veita þeim fátæku tækifæri til jafns á við önnur börn. Æran okkar allra er að veði.

 

Höfundur er forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.




Skoðun

Sjá meira


×