Innlent

Elísabet Siemsen skipuð í embætti rektors MR

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Menntaskólinn í Reykjavík á busadegi.
Menntaskólinn í Reykjavík á busadegi. Vísir/stefán
Kristján Þór Júlíusson, mennta-og menningarmálaráðherra, hefur skipað Elísabetu Siemsen í stöðu rektors Menntaskólans í Reykjavík til fimm ára frá og með 1. nóvember 2017. Þetta kemur fram í tilkynningu frá mennta-og menningarmálaráðuneytisins. Þar segir jafnframt að Ólafur H. Sigurjónsson verði áfram í starfi skólameistara Fjölbrautaskólans við Ármúla.

Níu umsóknir bárust um embætti rektors MR og að fenginni umsögn skólanefndar ákvað ráðherra að skipa Elísabetu Siemsen í embætti rektors skólans. Skólanefndin hafði í umsögn sinni mælt með henni í starfið.

Elísabet Siemsen hefur M.Paed. í þýsku frá Háskóla Íslands (2004), kennslufræði til kennsluréttinda frá Háskóla Íslands (1985), framhaldsnám í þýsku, samanburðarmálfræði (þýs-dan) og merkingarfræði Nordisk og tysk fakultet frá Kaupmannahafnarháskóla (1982), BA-próf í þýsku og íslensku frá Háskóla Íslands (1978).

Elísabet hefur rúmlega þriggja áratuga kennslureynslu á framhaldsskólastigi og hefur meðal annars sinnt starfi kennara, deildarstjóra, kennslustjóra, forvarnafulltrúa, áfangastjóra, aðstoðarskólameistara og sem skólameistari í fjarveru skipaðs skólameistara. Frá árinu 2005 hefur hún starfað óslitið við stjórnunarteymi Fjölbrautaskólans í Garðabæ og sótt sér reglulega menntun í stjórnun frá þeim tíma.

Þá varð ráðherrann við áskorun skólanefndar og starfsfólks Fjölbrautaskólans við Ármúla þar sem óskað var eindregið eftir því að ráðningu nýs skólameistara yrði frestað til loka skólaárs.

Tímabundin setning Ólafs H. Sigurjónssonar í starf skólameistara FÁ hefur verið framlengd til 31. júlí 2018.  Ráðherra hefur tekið ákvörðun um að hætta við ráðningu í embætti skólameistara Fjölbrautskólans við Ármúla að svo stöddu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×