Fyrrum Ólympíumeistarinn í 1500m hlaupi, Asli Cakir Alptekin, hefur verið dæmd í lífstíðarbann frá frjálsum íþróttum.
Hin tyrkneska Cakir Alptekin var svipt Ólympíumeistara og Evrópumeistaratitlum sínum frá 2012 árið 2015, jafnframt sem tyrkneska frjálsíþróttasambandið dæmdi hana í átta ára bann vegna lyfjamisnotkunar.
Í ár snéri hún aftur á frjálsíþróttavöllinn eftir að hafa fengið dagsetningu bannsins færða aftur til 2013 og það stytt í fjögur ár.
Nú hefur hún hins vegar enn einu sinni verið fundin sek um lyfjamisnotkun og dæmd í lífstíðarbann.
„Við munum aldrei líða lyfjamisnotkun,“ sagði formaður tyrkneska frjálsíþróttasambandsins, Fatih Cintimar.
Cakir Alptekin hafði áður setið tveggja ára bann fyrir að falla á lyfjaprófi árið 2004.
