Skoðun

25 Evrópuríki höfnuðu eigin gjaldmiðli; Þýskaland líka

Ole Anton Bieltvedt skrifar
Fyrir nokkru tjáði fjármálaráðherra sig um þörf þess, að við tækjum upp stöðugan gjaldmiðil, helst evruna, til að tryggja trausta afkomu og stöðugleika – svo menn gætu gert áætlanir og byggt sín áform og plön á traustum grunni – og, ekki síst, til að tryggja lága vexti.

Flestum er ljóst, að akkúrat vextir eru helsta leiðin í hverju þjóðfélagi til að færa fjármuni milli þeirra, sem skulda, oft unga fólksins, og þeirra, sem eiga; fjármagnseigenda.

Vextir hér á Íslandi hafa síðustu misseri – á tíma lágmarksverðbólgu – verið svo háir, að við arðráni liggur, þar sem gífurlegir fjármunir hafa verið færðir frá skuldurum yfir á fjármagnseigendur, án þess að fjármagnseigendur hafi í raun lagt neitt af mörkum.

Í þessu kerfi, sem einkum Seðlabanki ber ábyrgð á, felst hróplegur ójöfnuður og ranglæti. Einkum út af því, að allir aðrir seðlabankar og stjórnvöld sáu – eftir banka- og fjármálakreppuna – að svona hávaxtastefna stæðist hvorki í framkvæmd né siðferðislega.

Ekki lái ég því fjármálaráðherra, sem að sjálfsögðu vill landsmönnum aðeins vel, að hann skuli tjá sig hreint og opinskátt um það, að evran verði að koma, ef við eigum að tryggja hag okkar og kjör, stöðugleika og öryggi, á sem bestan hátt.

Sjálfur bjó ég í Þýskalandi í 27 ár, lengst af með evru, og þekki ég því af eigin raun þann gífurlega kost – stöðugleika, öryggi og lága vexti – sem evran tryggir. Þjóðverjar áttu fyrir sitt ofur­sterka þýska mark, en höfnuðu því í þágu evru. Sumir virðast halda, að krónan sé hluti af okkar þjóðerni og sjálfstæði, og, að við verðum því að halda henni. Þetta er mikil firra.

Gjaldmiðill er aðeins verkfæri til að miðla verðmætum og fjármunum milli manna. Nafnið er aukaatriði, enda krónur í mörgum löndum, en gæði og traustleiki verkfærisins aðalatriði.

Við höfum verið að athafna okkur með hálfónýtu verkfæri allt of lengi, en afleiðingar hafa verið darraðardans og sveiflur, upp og niður, og svo loks algjört skipbrot og hrun 2008.

Þetta er búið að standa í 70 ár, og enn hafa sumir ekki fengið nóg. Svo má illu venjast, að gott þyki.

Daginn eftir að fjármálaráðherra gekk fram á völl og tjáði sig skýrt og skorinort um hagsmuni Íslendiga og besta mögulega gjaldmiðlastefnu fyrir þjóðina, stígur varaformaður Framsóknarflokksins fram og segir m.a. þetta: „Það er fáheyrt að fjármálaráðherra þjóðríkja tali gegn eigin gjaldmiðli.“

Virðist varaformaðurinn hér hafa ruglast eilítið í ríminu. Hvorki fleiri né færri en 25 þjóðríki hafa hafnað eigin gjaldmiðli og tekið upp evruna.

Nú á varaformaðurinn langan feril að baki erlendis, var auk þess um skeið utanríkisráðherra landsins og því væntanlega í nokkru sambandi við útlönd, en gjaldmiðlamál Evrópu virðast hafa farið nokkuð fram hjá honum. Getur slíkt hent hið besta fólk.

Skulu þjóðríkin 25, sem höfnuðu eigin gjaldmiðli, því listuð upp, varformanni og öðrum ágætum lesendum til fróðleiks:

Andorra, Austurríki, Belgía, Eistland, Finnland, Frakkland, Grikkland, Holland, Ítalía, Írland, Kósóvó, Kýpur, Lettland, Litháen, Lúxemborg, Malta, Mónakó, Portúgal, San Marínó, Slóv­akía, Slóvenía, Spánn, Svartfjallaland, Vatíkanið, Þýskaland.

Það hefur verið í tísku hér að tala illa um Evrópu, ESB og evruna. Þetta er einhver mesta fíflatíska, sem ég þekki.

Við erum Evrópa og Evrópa er við. Sama grunnmenning, að miklu leyti sama fólk og sama blóð, sömu sjónarmið til frelsis, sjálfstæðis þjóðanna og mannréttinda, sömu hagsmunir – líka efnahagslega; 80-90% af okkar útflutningi fara til Evrópu. Auk þess er ESB ríkjasamband, sem byggir á mesta lýðræði sögunnar. Sérhvert aðildarríkjanna hefur neitunarvald og getur fellt tillögur um ný áform, reglur eða lög. Ef við værum fullir aðilar, færi ekkert í gegn án þess að við samþykktum líka.

Væri ekki líka flott, ef við gætum beitt gjaldmiðli okkar alls staðar?

 

Höfundur er alþjóðlegur kaupsýslumaður.




Skoðun

Sjá meira


×