Þar má sjá undirskriftir þriggja einstaklinga, forsetans Guðna Th. Jóhannessonar, Ragnhildar Hjaltadóttur ráðuneytisstjóra í innanríkisráðuneytinu og fyrrnefndar Ólafar Nordal.
Hugmyndir um að núverandi forsætisráðherra hafi verið yfir innanríkisráðuneytinu þegar tillagan um að veita Roberti uppreist æru virðist eiga rætur sínar í viðtali við Bjarna á RÚV fyrr í sumar.
Bjarni var spurður út í hugsanlega ábyrgð sína á ákvörðuninni um að veita Roberti uppreist æru í frétt RÚV 16. júní. Þar kom fram að Bjarni hefði verið starfandi innanríkisráðherra á meðan Ólöf Nordal var í veikindaleyfi.
„Nei, ég tók við niðurstöðu úr ráðuneytinu sem hafði bara fengið sína hefðbundnu meðferð,“ sagði Bjarni við RÚV þegar hann var spurður hvort hann hefði átt aðkomu að ákvörðuninni.
Í myndskeiðinu sem fylgir fréttinni á vef RÚV kemur ekki fram í máli Bjarna að hann hafi verið starfandi innanríkisráðherra á þeim tíma þegar ákvörðunin var tekin. Í texta fréttarinnar kemur aðeins fram að hann hafi gegnt embættinu á meðan Ólöf var í veikindaleyfi.
Bjarni hafnaði því í Facebook-færslu á miðvikudag að hafa verið starfandi innanríkisráðherra þegar ráðuneytið leiddi málið til lykta. Vísaði hann til leiðara Fréttablaðsins þar sem var fullyrt að Bjarni hafi skrifað upp á ákvörðunina sem sitjandi innanríkisráðherra.
Tillöguna um uppreista æru Róberts, sem lögð var á borð forseta þann 16. september síðastliðinn, má sjá í færslu Bergs hér að neðan.