Erlent

Trump-liðar hóta Alaska vegna atkvæðis þingmanns

Samúel Karl Ólason skrifar
Ryan Zinke, innanríkisráðherra Bandaríkjanna.
Ryan Zinke, innanríkisráðherra Bandaríkjanna. Vísir/EPA
Innanríkisráðherra Donald Trump, Ryan Zinke, hringdi í báða öldungadeildarþingmenn Alaska og varaði þau við því að mögulegt væri að ríkisstjórnin myndi breyta stefnu sinni varðandi Alaska. Það gerði hann eftir að þingkonan Lisa Murkowski greiddi atkvæði gegn því að fella niður sjúkratryggingakerfi Bandaríkjanna, sem í daglegu tali er kallað Obamacare.

Zinke, sem stýrir málefnum lands í alríkiseigu og auðlinda, sagði að atkvæði Murkowski hefði ógnað þeirri framtíð sem ríkisstjórnin hefði í huga varðandi Alaska. Þetta sagði hinn þingmaður ríkisins, Dan Sullivan, við Alaska Dispatch News. Bæði hann og Murkowski eru meðlimir Repúblikanaflokksins.



Sullivan sagðist óttast að sú lína sem Hvíta húsið hafði lagt varðandi Alaska, fjölgun starfa í námuvinnslu, orkuframleiðslu og öðru, væri í hættu.

„Ég reyndi að verjast fyrir hönd allra íbúa Alaska. Við erum að ganga í gegnum erfiða tíma og það var mikil jákvæðni varðandi stefnu sem Zinke og forsetinn hafa verið tala um varðandi efnahag okkar. Skilaboðin voru hins vegar skýr,“ sagði Sullivan.

Murkowski og þingkonan Susan Collins frá Maine voru þær einu innan flokksins sem kusu gegn því að hefja umræðu um að fella Obamacare niður og þurfti Mike Pence, varaforseti og forseti öldungadeildarinnar, að grípa inni þar sem atkvæðin voru jöfn, 50 gegn 50. Gerist það er það varaforseti Bandaríkjanna sem hefur úrslitaatkvæði.

Þetta var á þriðjudaginn. Á miðvikudaginn tíst Trump og sagði Murkowski hafa brugðist repúblikönum og Bandaríkjunum.


Tengdar fréttir

Trump sagður íhuga að nýta þinghlé til að skipa nýjan dómsmálaráðherra

Þegar Bandaríkjaþing fer í sumarfrí í næsta mánuði gæti Donald Trump skipað nýjan dómsmálaráðherra án þess að þurfa að fá staðfestingu þingmanna. Forsetinn er sagður ræða þann möguleika við ráðgjafa sína en hann hefur gagnrýnt Jeff Sessions, dómsmálaráðherra, harðlega að undanförnu.

Innanhússerjur í Hvíta húsinu fyrir opnum tjöldum

Samskiptastjóri Hvíta hússins gefur sterklega í skyn að starfsmannastjóri þess hafi lekið skaðlegum upplýsingum í fjölmiðla. Hann segir að þeir sem hefðu lekið eins viðkvæmum upplýsingum og nú sé gert hefðu verið hengdir fyrr á öldum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×