Erlent

Ætlar ekki að segja af sér fyrr en Trump segir til

Samúel Karl Ólason skrifar
Jeff Sessions, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna.
Jeff Sessions, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna. Vísir/GETTY
Jeff Sessions, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, ætlar ekki að segja af sér. Nema Donald Trump, forseti, segi honum að gera það. Sessions segir þá deila sömu gildum og hann muni berjast fyrir stefnu forsetans eins lengi og „það sé við hæfi. Undanfarna viku hefur Trump ítrekað gagnrýnt Sessions opinberlega. Meðal annars hefur forsetinn kallað ráðherra sinn „veikburða“ og „óskilvirkan“.



„Ef hann vill gera breytingu, þá er það réttur hans,“ sagði Sessions við AP fréttaveituna. „Ég þjóna forsetanum og ég hef skilið það frá því að ég tók við starfinu.“



Sessions var fyrsti öldungadeildarþingmaður Repúblikanaflokksins til að lýsa yfir stuðningi við forsetaframboð Trump og hefur ávallt verið dyggur stuðningsmaður forsetans. Trump varð hins vegar reiður við Sessions eftir að hann sagði sig frá öllu sem kemur að rannsókninni á afskiptum stjórnvalda í Rússlandi af forsetakosningunum og mögulegu samstarfi framboðs Trump við Rússa.

Það gerði Sessions eftir að hann sagði þingmönnum ósatt um fundi sína með Sergey Kislyak, þáverandi sendiherra Rússlands í Bandaríkjunum.

Ekki hans besta vika

Öldungadeildarþingmenn Repúblikanaflokksins hafa komið Sessions til varnar og formaður dómsmálefndar þingsins hefur sagt að ekki sé inn í myndinni að staðfesta annan í embættið á þessu ári. Fregnir hafa borist af því að Trump sé því að íhuga aðra leið.

Sjá einnig: Trump sagður íhuga að nýta þinghlé til að skipa nýjan dómsmálaráðherra



Ráðherrann sagðist hæstánægður með þann stuðning sem hann hefur fengið.

„Ég held að við séum með gott Dómsmálaráðuneyti. Ég hef trú á því og veit hvað þarf í ráðuneytinu og hvað Donald Trump vill. Ég deili stefnu hans.“

Þó sagði Sessions ljóst að síðasta vika hefði ekki verið sú besta fyrir hann og samband hans og forsetans. Hann sagði þá ekki hafa rætt saman um skeið en hann hlakkaði til þess að ræða þessi mál við Trump.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×