Íslenski boltinn

Præst spilar líklega ekki meira með KR í sumar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Michael Præst, leikmaður KR.
Michael Præst, leikmaður KR. Vísir/Ernir
Michael Præst, danski miðjumaðurinn í herbúðum KR, kemur líklega ekki meira við sögu á tímabilinu vegna hnémeiðsla. Þetta staðfesti Willum Þór Þórsson, þjálfari KR, við Morgunblaðið í dag.

Willum sagði að Præst mætti ekki byrja í fótbolta á nýjan leik fyrr en í september og því ólíklegt að hann spili meira með KR í sumar, þó svo að það sé ekki útilokað.

Michael Præst sleit krossband í hné sumarið 2014 þegar hann var á mála hjá Stjörnunni en hann gekk svo í raðir KR haustið 2015. Hann spilaði sextán leiki með KR síðasta sumar og hefur komið við sögu í sex leikjum í sumar.

Willum Þór sagði einnig að Indriði Sigurðsson yrði frá næstu tvær vikurnar hið minnsta þar sem hann er með brjósklos og brjóskeyðingu í hné. Markverðirnir Stefán Logi Magnússon og Sindri Snær Jensson verða einnig áfram frá keppni vegna meiðsla.

KR mætir finnska liðinu SJK í forkeppni Evrópudeildar UEFA í dag en leikurinn verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×