Erlent

Lögmaður Trump segir forsetann ekki til rannsóknar

Kjartan Kjartansson skrifar
Donald Trump virtist staðfesta að hann væri til rannsóknar á föstudag en nú segir lögmaður hans annað.
Donald Trump virtist staðfesta að hann væri til rannsóknar á föstudag en nú segir lögmaður hans annað. Vísir/EPA
Einn lögmanna Donalds Trump Bandaríkjaforseta heldur því fram að forsetinn sé ekki til rannsóknar vegna mögulegrar hindrunar á framgangi réttvísinnar. Stangast það á við frétt Washington Post og orð forsetans sjálfs.

„Leyfðu mér að tala skýrt, eins og það hefur verið frá upphafi, þá er forsetinn ekki og hefur ekki verið til rannsóknar vegna hindrunar,“ sagði Jay Sekulow, einn lögmanna Trump í viðtali við NBC-sjónvarpsstöðina í dag og Washington Post hefur eftir.

Washington Post hafði það eftir fimm ónafngreindum háttsettum embættismönnum í síðustu viku að Trump væri til rannsóknar fyrir mögulegar tilraunir til að hafa áhrif á rannsókn alríkislögreglunnar á mögulegum tengslum samstarfsmanna hans við Rússa.

Sjá einnig: Trump segist vera til rannsóknar fyrir að hafa rekið Comey

Trump staðfesti sjálfur að hann væri til rannsóknar á Twitter á föstudag.

„Það er verið að rannsaka mig,“ tísti forsetinn meðal annars.

Vitnaði til orða Comey á meðan hann var yfir FBI

Sekulow sagði tístið hins vegar hafa verið svar við frétt Washington Post. Hann væri ekki til rannsóknar hjá Robert Mueller, sérstökum rannsakanda dómsmálaráðuneytisins á Rússatengslunum.

Vísaði lögmaðurinn meðal annars til framburðar James Comey, sem Trump rak sem forstjóra FBI og er líklega ástæða þess að forsetinn gæti verið til rannsóknar. Hann sagði þingnefnd í þarsíðustu viku að hann hefði sagt Trump í þrígang að hann væri ekki sjálfur til rannsóknar.

Comey tók hins vegar sérstaklega fram að hann vissi ekki hvað hefði gerst frá því að hann var rekinn. Ástæðan fyrir því að hann vildi ekki lýsa því yfir að Trump væri ekki til rannsóknar, eins og forsetinn þrýsti á hann að gera, væri meðal annars sú að þá hefði FBI haft skyldu til að leiðrétta það ef sú staða breyttist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×