Erlent

Lögfræðingur Donalds Trump neitar að veita upplýsingar í tengslum við Rússlandsrannsóknina

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Donald Trump er nú undir smásjá Bandaríkjaþings vegna meintra tengsla við Rússland.
Donald Trump er nú undir smásjá Bandaríkjaþings vegna meintra tengsla við Rússland. Vísir/AFP
Tvær þingnefndir, sem rannsaka meint afskipti Rússlands af bandarískum stjórnmálum, hafa krafið lögfræðing Donalds Trump, Michael Cohen, um upplýsingar um samskipti sín við Rússland. BBC greinir frá.

Michael Cohen staðfesti þetta við bandaríska fjölmiðla í dag og sagðist hafa verið beðinn um að „veita upplýsingar og vitnisburð“ um öll samskipti sem hann hafi átt við rússnesk yfirvöld. Cohen sagðist enn fremur hafa hafnað beiðninni vegna þess að hún hafi verið „of víðtæk“ og „ekki hafi verið hægt að svara henni.“

Bandaríska alríkislögreglan og bandaríska dómsmálaráðuneytið rannsaka nú hvort og þá hvernig Rússsland hafi haft afskipti af forsetakosningunum í Bandaríkjunum síðastliðið haust. Einnig er verið að rannsaka hvort að starfsmenn Trump hafi tekið þátt í slíku athæfi. Í samtali við CNN sagði Cohen að deildir þingsins ættu enn eftir að koma fram með einn einstakan snefil af trúverðugunum sönnunargögnum sem staðfesta téð afskipti Rússa.

Þá greindi AP-fréttaveitan frá því í kvöld að Michael Flynn, fyrrum þjóðaröryggisráðgjafi Donalds Trumps, myndi afhenda rannóknarnefnd þingsins skjöl í tengslum við rannsóknina á afskiptum Rússa. Hann hafði áður synjað beiðninni.

Jared Kushner, tengdasonur og einn helsti ráðgjafi Donalds Trump, er sagður hafa rætt í byrjun desember síðastliðnum við sendiherra Rússlands í Bandaríkjunum um möguleikann á því að koma upp leynilegri samskiptalínu milli stjórnvalda ríkjanna tveggja. Hann sætir nú rannsókn Bandarísku alríkislögreglunnar, FBI.

Aðrir aðstoðarmenn Donalds Trump hafa fengið sambærilegar stefnur og lögfræðingurinn en þar á meðal eru Roger Stone, Paul Manafort og Carter Page. Hinir tveir fyrrnefndu eru sagðir hafa samþykkt beiðnina en Page er sagður eiga eftir að svara henni.


Tengdar fréttir

Flynn neitar að afhenda gögn

Michael Flynn, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafi Donald Trump, og miðpunktur í rannsókn á mögulegum tengslum starfsmanna Trump við Rússland mun neita að afhenda þingnefnd gögn í tengslum við rannsóknina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×