Erlent

ISIS-liðar kalla Trump fífl

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. Vísir/EPA
Íslamska ríkið hefur tjáð sig opinberlega um Donald Trump, forseta Bandaríkjanna. Abu al-Hassan al-Muhajir, talsmaður ISIS sendi frá sér hljóðupptöku í gær, þar sem hann kallaði forsetann „fífl“. Hann kallaði einnig eftir frekari árásum stuðningsmanna samtakanna í Bandaríkjunum, Evrópu og í Rússlandi.

„Ameríka, ykkur hefur verið drekkt og það er enginn bjargvættur. Þið eruð bráð hermanna Kalífadæmisins víðs vegar um jörðina. Þið eruð gjaldþrota og ummerki niðurfalls ykkar eru augljós í allra augum. Hvergi má sjá betri vísbendingar en í þeirri staðreynd að fífl, sem veit ekki hvað Sýrland, Írak né Íslam er, leiðir ykkur,“ sagði talsmaðurinn.

Samkvæmt New York Times, hafa sérfræðingar óttast að yfirlýsingar Trump og stefnur hans, eins og sú að banna fólki frá nokkrum löndum, hið svokallaða múslimabann, að koma til Bandaríkjanna, gætu verið nýttar af hryðjuverkasamtökum til áróðurs.

Talsmaðurinn tók við af fyrrverandi talsmanni ISIS og næstráðandi, Abu Muhammad al-Adnani, sem var felldur í loftárás í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×