Aníta Hinriksdóttir náði þriðja sæti í 800 metra hlaupi á sterku móti í Düsseldorf í Þýskalandi í kvöld.
Aníta var þarna að hlaupa sitt fyrsta 800 metra hlaup á árinu 2017 en hún kom í mark á 2:02,64 mínútum og var því rúmri sekúndu frá Íslandsmeti sínu.
Joanna Jóźwik frá Póllandi var öruggur sigurvegari en hún hljóp á 2:00,91 mínútum.
Aníta var í hörku keppni um annað sætið en rétt á undan henni var hin sterka Selina Büchel frá Sviss.
Aníta var aftur á móti fljótari en stórstjörnurnar Marina Arzamasova frá Hvíta-Rússlandi og Christina Hering frá Þýskalandi sem voru í næstu sætum á eftir henni.
Næsta mót hjá Anítu Hinriksdóttir er svo Reykjavíkurleikarnir í Laugardalshöllinni á laugardaginn.
