Þeir hafa í kjölfarið nýverið stofnað í sameiningu félagið Klettar Capital sem annast eignastýringu fyrir hönd viðskiptavina. Allir eiga þeir að baki áralanga reynslu sem verðbréfamiðlarar á fjármálamarkaði en Jón Gunnar er sonur Gríms Sæmundsens, forstjóra og eins stærsta hluthafa Bláa lónsins.
Enn og aftur seinkun
Forsvarsmenn Silicor Materials sömdu nýverið við Faxaflóahafnir um seinkun á gildistöku samninga um hafnaraðstöðu og lóð á Grundartanga til septembermánaðar. Samningarnir áttu að taka gildi í apríl í fyrra en fjármögnun verkefnisins hefur dregist. Fréttablaðið hafði áður greint frá því að nokkrir af þeim íslensku einkafjárfestum sem tóku þátt í hlutafjársöfnun sólarkísilversins séu ósáttir við tafirnar. Í næsta mánuði verða liðin þrjú ár síðan Davíð Stefánsson, stjórnarmaður og talsmaður Silicor Materials, greindi frá áformum fyrirtækisins og eitt og hálft ár síðan fjárfestarnir fóru inn í hluthafahópinn.

Eftir að Íslandsbanki endaði í faðmi ríkisins var ákveðið af nýrri stjórn bankans að frá og með þessu ári yrðu ekki lengur greiddir bónusar til starfsmanna. Á árinu 2015 höfðu um hundrað starfsmenn bankans fengið bónus að fjárhæð samtals 736 milljónir.
Ekki er hins vegar víst að sú ráðstöfun muni hjálpa Birnu Einarsdóttur, bankastjóra Íslandsbanka, mikið við að halda aftur af auknum launakostnaði. Þannig eru dæmi þess að bankinn hafi þurft að bregðast við þessari nýju stöðu með því að hækka nokkuð laun sumra lykilstarfsmanna til að koma í veg fyrir að þeir færu yfir til helstu keppinauta bankans.
Skotsilfrið er óvægin innsýn inn í bakherbergi viðskipta og atvinnulífs á landinu. Pistillinn birtist í Markaðnum í Fréttablaðinu á miðvikudögum.