Erlent

Angela Merkel vill fjórða kjörtímabilið

Una Sighvatsdóttir skrifar
Enginn vafi er á því að Angela Merkel er einn merkasti stjórnmálaleiðtogi seinni tíma í Evrópu. Hún hefur nú verið kanslari Þýskalands í ellefu ár og höfðu lengi verið vangaveltur um hvort þessi valdamesta kona heims myndi bjóða sig fram enn á ný í komandi kosningum í Þýskalandi 2017. 

Í dag batt hún endi á óvissuna þegar hún tilkynnti, fyrst samstarfsfólki sínu í Kristilega demókrataflokknum og loks fjölmiðlum, að hún sækist eftir endurkjöri. Engin mörk eru á því hve mörg kjörtímabil þýskir kanslarar geta setið. Bæti Merkel því fjórða við mun hún jafna met Helmut Kohl sem var kanslari í 16 ár.

Nýtur enn mikils persónufylgis

Merkel hefur í stjórnartíð sinni glímt við risavaxnar áskoranir eins og kreppuna á evrusvæðinu og mestu fjölgun flóttafólks í álfunni frá Síðari heimsstyrjöld. Sagan mun dæma um hvort ákvörðun hennar um að opna landamæri Þýskalands fyrir fólki í neyð var rétt en til skamms tíma hefur það reynst Kristilegum demókrötum dýrkeypt í fylgi.

En þótt vinsældir Merkel hafi dalað nýtur hún enn ótrúlega mikils persónufylgis. Samkvæmt skoðanakönnun sem þýska blaðið Bild am Sonntag birti í dag styðja 55 prósent Þjóðverja, meira en helmingur kjósenda, fjórða kjörtímabil Merkel sem kanslara, en 39% vilja sjá hana hverfa á braut.

Merkel í fylkingabrjósti frjálslyndis

Margir líta nú Merkel sem helsta leiðtoga frjálslyndis og stöðugleika á Vesturöndum í dag, en ljóst er að á brattann verður að sækja fyrir hana á næsta kjörtímabili, haldi hún völdum.

Merkel hefur þegar misst einn sinn helsta bandamann á alþjóðasviðinu, Barack Obama, og kjör Donald Trump er talið geta gefið hægriflokkum Evrópu byr undir báða vængi. Þar á meðal eru Alternativ für Deutscland í heimalandi hennar og Front National í Frakklandi.

Franska þjóðfylkingin sækir fram

Þar í landi fer verður einnig kjörinn þjóðarleiðtogi á næsta ári og er Francoise Holland talinn eiga llitla möguleika á endurkjöri. Skoðanakannanir til þess að valið muni standa milli Marine Le Pen, leiðtoga hægri öfgamanna, og frambjóðanda Lýðveldisflokksins, en fyrri hluti forkosninga Lýðveldisflokksins fer fram í dag og í framboði eru meðal annars Nicolas Sarkozy og Alain Juppe fyrrverandi forsætisráðherra.

Úrslitin í Frakklandi gætu haft mikið að segja um framhald stjórnartíðar Merkel, og um leið stefnu Evrópu allrar næstu árin.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×