Philippe Coutinho fór meiddur af velli í leiknum gegn Sunderland á Anfield í gær. Óttast er að liðbönd í ökkla hafi skaddast en það gæti þýtt langa fjarveru.
Coutinho mun fara í nánari skoðun á morgun og þá mun betur koma í ljós hversu alvarleg meiðsli hans eru. Brasilíumaðurinn hefur verið frábær á tímabilinu og skorað fimm mörk auk þess að gefa sex stoðsendingar.
Coutinho yfirgaf Melwood, æfingasvæði Liverpool, á hækjum í dag og með umbúðir um hægri ökklann. Séu liðböndin sködduð er ólíklegt að Coutinho spili meira fyrr en á nýju ári og það yrði mikið áfall fyrir Liverpool.
Meiðslin koma á slæmum tíma fyrir Jurgen Klopp knattspyrnustjóra Liverpool enda fjölmargir leikir framundan í desember. Klopp vonast eftir betri fréttum af Adam Lallana, Roberto Firmino og Daniel Sturridge en þeir eiga allir við meiðsli að stríða.
Firmino var tekinn af velli í gær eftir að hafa fengið spark í kálfann. Meiðsli hans eru ekki talin alvarleg og vonast Klopp eftir að geta notað Firmino í næsta leik í deildinni.
Lallana er á ágætis batavegi eftir nárameiðsli en verður líklega ekki tilbúinn fyrir leikinn gegn Leeds í deildarbikarnum á þriðjudag. Ólíklegt er að Sturridge verði með í þeim leik en hann er meiddur á kálfa líkt og Firmino.
Klopp og stuðningsmenn Liverpool bíða því eflaust með öndina í hálsinum eftir frekari fregnum af meiðslum leikmanna liðsins. Coutinho er þó sá sem mest óvissa er um og má Liverpool illa við því að missa Brasilíumanninn í lengri tíma.

